Enski boltinn

Þriðju kaup City í vikunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Marlos til hægri.
Marlos til hægri. vísir/getty
Manchester City hefur gengið frá kaupum á kólumbíska framherjanum Marlos Moreno, en félagið staðfesti þetta í morgun.

Moreno er einungis nítján ára gamall, en hann skrifar undir fimm ára samning við þá bláklæddu í Manchester.

Hann er því þriðju kaup Pep Guardiola í vikunni hjá Manchester City, en áður hafði Guardiola krækt í Leroy Sane frá Schalke og Gabriel Jesus frá Palmeiras.

Moreno spilaði vel fyrir Atletico Nacional í Copa Liberatadores, Meistaradeildinni í Suður-Ameríku, en Moreno skoraði þrjú mörk í fyrstu þremur leikjunum. Nacional vann að lokum keppnina.

„City er eitt af bestu félögunum í heimi. Þetta verður góð reynsla að vera partur af svona stórum klúbb. Ég vil gera sem mest úr því," sagði Moreno við heimasíðu City.

„Guardiola er einn besti þjálfarinn í heiminum. Ég held að honum líki vel við unga leikmenn og hann geti bætt þá tæknilega og taktísktlega. Það verður frábært að vinna með honum og vera hluti af frábæru liði."

Moreno spilaði sinn fyrsta leik fyrir Kólumbíu snemma á þessu ári og skoraði svo sitt fyrsta landsliðsmark í sumar þegar hann skoraði á Copa America.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×