Lífið

Sænskir grísaglímuklæddir elskendur áreittu Pokémon-spilara með leysigeislum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglan rannsakar málið og segir það alvarlegt.
Lögreglan rannsakar málið og segir það alvarlegt. Vísir/Getty
Lögreglan í sænska smábænum Insjön rannsakar nú athæfi pars sem vakið hefur alþjóðlega athygli. Trufluðu þau grunlausa táninga sem í sakleysi sínu spiluðu Pokémon Go áður en parið olli umferðarteppu með því að stunda kynlíf við helsta kennileiti bæjarins.

Parið, klætt í samstæða boli og með grísagrímur úr gúmmíi fyrir andlitum sínum, virðast hafa beint öflugum leysigeislum að táningunum sem vissu varla hvaðan á þeim stóð veðrið. Þegar annar leysigeislinn lenti á auga annars táningsins hljóp parið í burtu.

„Þau voru með gúmmígrímur fyrir andlitinu og byrjuðu að öskra, kalla og beina leysigeislunum að þeim,“ sagði móðir annars táningsins í samtali við staðarblaðið Dalarnas Tidingar.

Parið virðist ekki hafa látið sér þetta nægja því eftir að hafa hrellt táningana komu þau sér fyrir við sögufræga vatnsmyllu sem er í allra augsýn í bænum. Við það myndaðist umferðarteppa þegar undrandi vegfarendur virtu fyrir sér atlot parsins undarlega.

Táningunum tveimur varð ekki meint af leysigeislunum en lögregla rannsakar nú málið og segir það alvarlegt enda létt verk að valda alvarlegum augnskaða með öflugum leysigeislum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×