Lífið

Fyrstu álkarlar sögunnar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Guðbjörg, Andri, Svanhvít og Jakob með lukkudýrinu Spretti sporlanga.
Guðbjörg, Andri, Svanhvít og Jakob með lukkudýrinu Spretti sporlanga. Mynd/Gunnar Gunnarsson hjá Austurfrétt
„Við tókumst á við þessar þrautir með viku millibili. Þær eru allar skemmtilegar og erfiðar,“ segir Jakob Antonsson, einn þeirra þriggja sem þreyttu Urriðavatnssund, Barðsneshlaup og hjólakeppnina Tour de Ormurinn sem saman mynda keppnina Álkarlinn. Hin sem luku keppni eru Svanhvít, systir Jakobs, og Andri Guðlaugsson á Egilsstöðum.

Sundið var 2,3 km langt, hlaupið 27 km og hjólaleiðin 103 km hringur um Fell, Fljótsdal og Velli, bæði á möl og bundnu slitlagi.

Hægt var líka að keppa í hálfkarli þar sem vegalengdir voru styttri. Egilsstaðabúinn Guðbjörg Björnsdóttir lauk þeim.

„Barðsneshlaupið er mjög erfitt, nánast bara hindrunarhlaup því stígarnir eru svo þröngir,“ segir Jakob sem hefur samanburð við Laugavegshlaup og Jökulslárhlaup.

Einnig hefur hann tekið þátt í Járnkarlinum bæði í Austurríki og Svíþjóð. „Við vorum þrú systkini frá Stöðvarfirði sem fórum til Kalmar að keppa í Járnkarlinum fyrir tveimur árum,“ upplýsir Jakob sem nú býr í Reykjavík.

Efnt hefur verið til Álkarlsins tvívegis áður, en enginn náði þá að ljúka keppni. 

Greinin var fyrst birt í Fréttablaðinu 16. ágúst 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×