Lífið

Universal gefur út plötu fyrir ketti

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Höfundur plötunnar hefur rannsakað áhrif tónlistar á ketti þrátt fyrir að glíma sjálfur við kattaofnæmi.
Höfundur plötunnar hefur rannsakað áhrif tónlistar á ketti þrátt fyrir að glíma sjálfur við kattaofnæmi. vísir/getty
Platan Music for Cats kemur til með að verða fyrsta hljómplatan, gefin út af meiriháttar plötuútgáfu, sem ekki er ætluð mannfólki. Þetta kemur fram í frétt The Guardian.

Á plötunni má meðal annars hlýða á soghljóð, purr og sellótónlist. Hljóðheimur plötunnar á að hafa slakandi áhrif á kettina og kalla fram vellíðunartilfinningu hjá þeim.

Platan er hugarfóstur Davids Teie, sem er sellisti og vísindamaður við Maryland-háskóla. Upphaflega hugðist hann fjármagna plötuna á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter en þar tókst honum að safna 250 þúsund dölum. Í kjölfar þeirrar miklu athygli sem fjármögnunin vakti fékk útgáfurisinn Universal áhuga á verkefninu og gekk skömmu síðar frá plötusamningi við Teie.

Áhugasamir kattaeigendur þurfa ekki að bíða lengi en Music for cats kemur út í lok október.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×