Lífið

„Verður eitthvað fyrir alla, líka nördana“

Atli Ísleifsson skrifar
Í Kópavogi.
Í Kópavogi. Mynd/Kópavogsbær
„Við ætlum að vera með einhverja dagskrá ætlaðri fjölskyldum á hverjum einasta laugardegi í vetur og munum kynna hana á eftir,“ segir Ólöf Breiðfjörð hjá Listhúsi Kópavogsbæjar, en menningarhúsin í Kópavogi munu hefja hauststarf sitt með opnu húsi í dag frá klukkan 13 til 17.

Ólöf segir að það verði fjör fyrir alla fjölskylduna sem byrji á flottum tónleikum í Salnum. „Síðan verður eitthvað fyrir alla – listasmiðja fyrir krakka, innlit í listaverkageymslur og svo endum við þetta á smá nördadagskrá í Héraðsskjalasafninu þar sem verður spjall um símaskrána í tímans rás. Það verður því eitthvað fyrir alla, líka nördana.“

Hátíðin byrjar á tónleikum í Salnum þar sem fram kemur fjölbreyttur hópur tónlistarmanna í því skyni að kynna dagskrá vetrarins í Salnum. Tónleikarnir eru ókeypis og hefjast klukka 13 en fram koma meðal annars Vala Guðnadóttir, Hallveig Rúnarsdóttir og Karl Olgeirsson.

„​Í Gerðarsafni verða listaverkageymslur opnaðar og í Náttúrufræðistofunni verður rannsóknarstofan til sýnis. Þá verður spjall og sýning um Símaskrána  í Héraðsskjalasafninu sem hefst klukkan 16. Yngri kynslóðin fær tækifæri til að skapa póstkort í Gerðarsafni, skoða fiska og uppstoppuð íslensk dýr í Náttúrufræðistofunni og fara í ratleik í bókasafninu,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×