„Ég hafði alltaf teiknað tattúin mín og svo fengið aðra til að útfæra þau á mig, en svo fattaði ég að stick and poke leit ekkert út fyrir að vera erfitt, ég gæti pottþétt alveg gert það sjálf. Af nálinni stafaði ekki sama hætta og alvara og af vélinni. Vinkona mín átti græjurnar og hún kenndi mér. Svo gerði ég það bara. Einfaldari leið,“ segir Gréta Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður.

„Mig langar í prentara á fótinn,“ þannig að ég teiknaði prentara og setti hann bara á fótinn.
Svo hugsaði ég: „mig langar í pappír sem er á leiðinni í prentarann!“ og bætti því við. Af hverju ekki?“ svarar Gréta Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður sem hefur verið að prófa sig áfram með stick and poke, þegar hún er spurð að því hvernig hún hafi leiðst út í þessa tegund húðflúrs.
Eru margir að gera þetta á Íslandi?
„Ég veit um nokkra en ekki hver útbreiðslan er í öðrum hópum.“

„Ég held að það sé gert af mörgum mismunandi ástæðum og að fagurfræðin spili inn í það. En þessi aðferð er klárlega hrárri.
Þetta getur líka verið miklu óformlegra og persónulegra, að teikna upp vinatattú og gera það á hvort annað. Það er ekki hljóð úr neinni vél eða neitt óþægilegt í umhverfinu. Bara nál, vinir og kannski skemmtileg bíómynd sem er horft á á meðan.“
Er ekki drullustressandi að teikna á skinnið á einhverjum?
„Það var alveg smá stressandi fyrst, en ekki lengur. Svo er líka málið að gera bara það sem maður treystir sér til – þetta þarf ekki að vera fullkomið.“



