Nissan Micra var fyrst kynnt til sögunnar fyrir 33 árum og hefur þessi bíll keppt við aðra magnsölubíla í þessum flokki minni fólksbíla, þ.e. bíla eins og Volkswagen Polo, Ford Fiesta, Toyota Yaris, Suzuki Swift og Renault Clio, svo einhverjir séu nefndir.
Nissan segir að hið nýja útspil þeirra í formi Nissan Micra sé enn einn djarflega teiknaður bíll fyrirtækisins á síðustu árum og kemur hann í kjölfar Nissan Juke, Qashqai og Note, sem allir hafa fengið frábærar móttökur. Nissan kallar nýjan Micra bíl sinn flaggskipið á meðal nýrra Nissan bíla og ætlar sér greinilega stóra hluti með þessum nýja bíl.
