Undir högg að sækja Þorvaldur Gylfason skrifar 29. september 2016 07:00 Ef Bandaríkin ein eru undan skilin var hvergi nokkurs staðar í heiminum að finna lýðræði fyrr en um 1850 þegar byltingaralda reið yfir Evrópu og fæddi m.a. af sér Þjóðfundinn í Lærða skólanum 1851. Byltingarnar voru að vísu barðar niður allar sem ein, en þær skiluðu eigi að síður drjúgum árangri þegar frá leið. Lýðræðisríkjum heimsins fjölgaði smám saman í 25 milli heimsstyrjaldanna, en þeim fækkaði síðan niður fyrir tíu í síðari heimsstyrjöldinni. Þessar tölur eru reistar á viðtekinni flokkun stjórnmálafræðinga. Frá 1945 til 1960 fjölgaði lýðræðisríkjum upp í 35 eða þar um bil, en þeim fjölgaði ekki frekar 1960-1980. Árin 1980-2000 rauk fjöldi lýðræðisríkja upp í 90 sem nam þá næstum helmingi allra landa heimsins. Þarna munaði einna mest um hrun kommúnismans um 1990. Eftir aldamótin 2000 hægði á útbreiðslu lýðræðis. Engin fjölgun hefur átt sér stað í hópi lýðræðisríkja frá 2006 eins og ég lýsti á þessum stað 5. marz 2015. Mörg lönd hafa dregið úr eða snúið baki við lýðræði undangengin ár, t.d. Rússland og Tyrkland og einnig Bangladess og Taíland. Einræðisríkjum fækkar, rétt er það, en fáræðisríkjum þar sem hvorki ríkir einræði né lýðræði fjölgar að sama skapi. Jafnvel ESB-ríkin Ungverjaland og Pólland sýna merki um dvínandi virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum í blóra við grundvallarhugsjónir ESB. Bandaríkin voru m.a.s. felld úr efsta flokki í nýrri skýrslu frá Freedom House um lýðræði og frelsi og standa nú að baki ESB-þjóðanna í lýðræðislegu tilliti. Svo bregðast krosstré sem önnur tré.Að breyta rétt Í þessu ljósi er vert að skoða þá staðreynd að Alþingi hafa ekki enzt fjögur ár til að staðfesta niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána 2012, stjórnarskrá sem 2/3 hlutar kjósenda lýstu stuðningi við. Stjórnmálamenn og aðrir virðast reyna að skýla sér á bak við veiklun lýðræðis í öðrum löndum til að réttlæta virðingarleysi þeirra sjálfra gagnvart leikreglum lýðræðisins hér heima. Við ættum heldur öll sem eitt að gæta þess að einmitt núna fer einstaklega illa á að senda lýðræðinu langt nef. Nú þegar lýðræði á undir högg að sækja í Evrópu og Bandaríkjunum af öllum stöðum ber brýna nauðsyn til að Alþingi breyti rétt og víki í engu frá djúpstæðri virðingu Íslendinga fyrir lýðræði. Alþingi þarf að sýna umheiminum að Íslendingum var alvara þegar þeir brugðust við bankahruninu 2008 með því að semja lýðræðislegustu stjórnarskrá sem sögur fara af að allra dómi sem gerst þekkja, og er þá átt bæði við inntak nýju stjórnarskrárinnar og aðferðina sem var notuð við samningu hennar. Ísland er nú í aðstöðu til að senda umheiminum örvandi boð um fegurð og notagildi lýðræðis, boð sem vinir lýðræðis og mannréttinda um allan heim myndu fagna. Sú staðreynd að Alþingi hafa ekki enzt fjögur ár til að senda frá sér svo sjálfsögð boð vekur eftirtekt, undrun og einnig áhyggjur ekki bara hér heima heldur einnig í útlöndum.Fyrirmyndir að utan Fyrirmyndir utan úr heimi eru skýrar. Þjóðaratkvæðagreiðslan um útgöngu Breta úr ESB í vor leið var ráðgefandi, en engum lýðræðissinna á Bretlandi eða annars staðar dettur í hug að ganga fram hjá niðurstöðunni nema þá kannski Skotum takist fyrir dómstólum að sýna fram á lögmætt neitunarvald sér til handa. Bandaríkjaþing breytti ekki stafkrók í stjórnarskránni sem stjórnlagaþingið í Fíladelfíu samdi á fjórum mánuðum 1787. Þingmenn skildu að þeim var ekki ætlað að skipta sér af málinu enda varðar stjórnarskráin þá sjálfa og starfshætti þeirra. Þingið sendi stjórnarskrána því áfram óbreytta til afgreiðslu í fylkjunum sem þá voru 13 talsins. Þegar níu fylki höfðu samþykkt textann varð hann að landslögum.… sem afturhaldsöflin geta fallizt á Óvíða hefur það komið skýrar fram en hér heima hversu illa fallin þjóðþing eru til að skipta sér af stjórnarskrám. Vandinn er að sönnu vel þekktur úti í heimi. Stjórnlagaráð samdi fullbúna stjórnarskrá fyrir opnum tjöldum á innan við fjórum mánuðum 2011 þannig að hvergi bar skugga á starfið, engin minnihlutaálit voru lögð fram og engar bókanir, enda komu þingmenn og stjórnmálaflokkar hvergi nærri verkinu. Stjórnarskrárnefnd Alþingis hélt 53 fundi fyrir luktum dyrum sl. þrjú ár til að fjalla um og úrbeina þrjár af 114 greinum í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Nefndin reyndist að endingu þríklofin eins og bókanir brotanna þriggja á vefsetri forsætisráðuneytisins vitna um. Einn fv. nefndarmaður, tilnefndur af Framsókn, lýsti verki nefndarinnar í heyranda hljóði sem handónýtu á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri um síðustu helgi. Annar nefndarmaður hefur lýst verki nefndarinnar svo: „Útkoman er sú sem afturhaldsöflin geta fallist á.“ Ólíklegt verður að teljast að frumvarp forsætisráðherra sem er byggt á verki nefndarinnar eftir 53 fundi nái fram að ganga fyrir þinglok.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Þeir sem þurfa ekki að takast á við afleiðingar gjörða sinna Davíð Már Sigurðsson Skoðun Kjósum Rósu á þing Linda Baldvinsdóttir Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Frekar vandræðalegt Ólafur Hauksson Skoðun Geðheilbrigðiskerfi án sálfræðinga, hvernig hljómar það? María Mjöll Björnsdóttir Skoðun Ritskoðun á heimsmælikvarða Hildur Þórðardóttir Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun Vonin er vonarstjarna sálfræðinnar Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun
Ef Bandaríkin ein eru undan skilin var hvergi nokkurs staðar í heiminum að finna lýðræði fyrr en um 1850 þegar byltingaralda reið yfir Evrópu og fæddi m.a. af sér Þjóðfundinn í Lærða skólanum 1851. Byltingarnar voru að vísu barðar niður allar sem ein, en þær skiluðu eigi að síður drjúgum árangri þegar frá leið. Lýðræðisríkjum heimsins fjölgaði smám saman í 25 milli heimsstyrjaldanna, en þeim fækkaði síðan niður fyrir tíu í síðari heimsstyrjöldinni. Þessar tölur eru reistar á viðtekinni flokkun stjórnmálafræðinga. Frá 1945 til 1960 fjölgaði lýðræðisríkjum upp í 35 eða þar um bil, en þeim fjölgaði ekki frekar 1960-1980. Árin 1980-2000 rauk fjöldi lýðræðisríkja upp í 90 sem nam þá næstum helmingi allra landa heimsins. Þarna munaði einna mest um hrun kommúnismans um 1990. Eftir aldamótin 2000 hægði á útbreiðslu lýðræðis. Engin fjölgun hefur átt sér stað í hópi lýðræðisríkja frá 2006 eins og ég lýsti á þessum stað 5. marz 2015. Mörg lönd hafa dregið úr eða snúið baki við lýðræði undangengin ár, t.d. Rússland og Tyrkland og einnig Bangladess og Taíland. Einræðisríkjum fækkar, rétt er það, en fáræðisríkjum þar sem hvorki ríkir einræði né lýðræði fjölgar að sama skapi. Jafnvel ESB-ríkin Ungverjaland og Pólland sýna merki um dvínandi virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum í blóra við grundvallarhugsjónir ESB. Bandaríkin voru m.a.s. felld úr efsta flokki í nýrri skýrslu frá Freedom House um lýðræði og frelsi og standa nú að baki ESB-þjóðanna í lýðræðislegu tilliti. Svo bregðast krosstré sem önnur tré.Að breyta rétt Í þessu ljósi er vert að skoða þá staðreynd að Alþingi hafa ekki enzt fjögur ár til að staðfesta niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána 2012, stjórnarskrá sem 2/3 hlutar kjósenda lýstu stuðningi við. Stjórnmálamenn og aðrir virðast reyna að skýla sér á bak við veiklun lýðræðis í öðrum löndum til að réttlæta virðingarleysi þeirra sjálfra gagnvart leikreglum lýðræðisins hér heima. Við ættum heldur öll sem eitt að gæta þess að einmitt núna fer einstaklega illa á að senda lýðræðinu langt nef. Nú þegar lýðræði á undir högg að sækja í Evrópu og Bandaríkjunum af öllum stöðum ber brýna nauðsyn til að Alþingi breyti rétt og víki í engu frá djúpstæðri virðingu Íslendinga fyrir lýðræði. Alþingi þarf að sýna umheiminum að Íslendingum var alvara þegar þeir brugðust við bankahruninu 2008 með því að semja lýðræðislegustu stjórnarskrá sem sögur fara af að allra dómi sem gerst þekkja, og er þá átt bæði við inntak nýju stjórnarskrárinnar og aðferðina sem var notuð við samningu hennar. Ísland er nú í aðstöðu til að senda umheiminum örvandi boð um fegurð og notagildi lýðræðis, boð sem vinir lýðræðis og mannréttinda um allan heim myndu fagna. Sú staðreynd að Alþingi hafa ekki enzt fjögur ár til að senda frá sér svo sjálfsögð boð vekur eftirtekt, undrun og einnig áhyggjur ekki bara hér heima heldur einnig í útlöndum.Fyrirmyndir að utan Fyrirmyndir utan úr heimi eru skýrar. Þjóðaratkvæðagreiðslan um útgöngu Breta úr ESB í vor leið var ráðgefandi, en engum lýðræðissinna á Bretlandi eða annars staðar dettur í hug að ganga fram hjá niðurstöðunni nema þá kannski Skotum takist fyrir dómstólum að sýna fram á lögmætt neitunarvald sér til handa. Bandaríkjaþing breytti ekki stafkrók í stjórnarskránni sem stjórnlagaþingið í Fíladelfíu samdi á fjórum mánuðum 1787. Þingmenn skildu að þeim var ekki ætlað að skipta sér af málinu enda varðar stjórnarskráin þá sjálfa og starfshætti þeirra. Þingið sendi stjórnarskrána því áfram óbreytta til afgreiðslu í fylkjunum sem þá voru 13 talsins. Þegar níu fylki höfðu samþykkt textann varð hann að landslögum.… sem afturhaldsöflin geta fallizt á Óvíða hefur það komið skýrar fram en hér heima hversu illa fallin þjóðþing eru til að skipta sér af stjórnarskrám. Vandinn er að sönnu vel þekktur úti í heimi. Stjórnlagaráð samdi fullbúna stjórnarskrá fyrir opnum tjöldum á innan við fjórum mánuðum 2011 þannig að hvergi bar skugga á starfið, engin minnihlutaálit voru lögð fram og engar bókanir, enda komu þingmenn og stjórnmálaflokkar hvergi nærri verkinu. Stjórnarskrárnefnd Alþingis hélt 53 fundi fyrir luktum dyrum sl. þrjú ár til að fjalla um og úrbeina þrjár af 114 greinum í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Nefndin reyndist að endingu þríklofin eins og bókanir brotanna þriggja á vefsetri forsætisráðuneytisins vitna um. Einn fv. nefndarmaður, tilnefndur af Framsókn, lýsti verki nefndarinnar í heyranda hljóði sem handónýtu á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri um síðustu helgi. Annar nefndarmaður hefur lýst verki nefndarinnar svo: „Útkoman er sú sem afturhaldsöflin geta fallist á.“ Ólíklegt verður að teljast að frumvarp forsætisráðherra sem er byggt á verki nefndarinnar eftir 53 fundi nái fram að ganga fyrir þinglok.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.