„Mér leið ofboðslega vel satt að segja þegar ég gekk inn í búrið. Þó svo að þetta hafi verið fyrsti atvinnubardaginn minn og samkvæmt því þá hefði alveg verið eðlilegt að það væri einhver skjálfti í mér, þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem ég fer í búr til að berjast og ég vissi alveg út í hvað ég var að fara. Þetta var erfiður andstæðingur, en mér leið eins og ég væri með yfirhöndina allan bardagann,” segir Sunna.
Bardaginn fór vel af stað og Sunna var allan tíman virkari og aggressífari en andstæðingur sinn. Hún náði mun fleiri höggum inn, náði afgerandi fellum í tvígang og á tímabili í annarri lotu virtist sem hún væri að ná hengingartaki, „rear naked choke”, sem Ashley tókst þó að verjast og að lokum að snúa sig út úr.
„Ég er að sjálfsögðu himinlifandi með að hafa sigrað minn fyrsta atvinnubardaga en mér finnst örlítið svekkjandi að hafa ekki náð að klára andstæðing minn.“
Sunna kom alveg ósködduð út úr viðureigninni og fagnaði sigrinum með liði sínu strax að honum liðnum.

Undirbúningur Sunnu fyrir bardagann hófst í júlí.
„Ég var búin að fá nokkuð skýrar upplýsingar um að það væri búið að finna fyrir mig andstæðing og að það væri verið að vinna í því að staðfesta bardaga í september. Ég ákvað að hefja strax þá undirbúninginn og fór til Írlands til vinar míns, Paddy Holohan, sem hafði boðið mér að koma og æfa með sér og sínu liði þar. Þetta var frábært upphaf á æfingabúðum sem síðan héldu áfram með mínum liðsfélögum í Mjölni.”

„Ég fékk ábendingu um Lindsey og ákvað að setja mig í samband við hana. Ég sé sko ekki eftir því. Mér leið vel í öllu ferlinu og mun klárlega gera þetta eins næst.”
Næstu skref Sunnu eru óráðin en líklegt verður að teljast að henni verði boðið að berjast fljótt aftur.
„Ég hlakka til að koma heim, hitta fólkið mitt og verja nokkrum dögum með þeim. Spjalla, hlæja og hafa það gott. Síðan er það bara beint aftur inn í æfingasalinn. Ég tek með mér gríðarlega góða reynslu úr þessum fyrsta bardaga og get varla beðið eftir því að fara í þann næsta. Ég verð tilbúin þegar síminn hringir.”