Lífið

Hanna Rún á sjúkrahúsi í Rússlandi: „Viss um að þeir myndu taka úr mér einhver líffæri og selja þau“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hanna Rún og Nikita höfðu átt æðislegar tvær vikur í Rússlandi og aðeins þrír dagar eftir þegar hún fékk magaverk.
Hanna Rún og Nikita höfðu átt æðislegar tvær vikur í Rússlandi og aðeins þrír dagar eftir þegar hún fékk magaverk. Vísir
„Ég hef ákveðið að segja ykkur frá hræðilegri lífsreynslu sem ég lenti í fyrir stuttu þegar við fjölskyldan fórum í frí til Rússlands að hitta fjölskyldu hans Nikita. Þau búa í bæ sem heitir Penza sem flokkast undir smábæ í Rússlandi þar sem það búa „ekki nema” rúmlega 750.000 manns.“

Svona hefst bloggfærsla frá Hönnu Rún Bazev Óladóttur en hún og eiginmaður hennar, Nikita Bazev, voru stödd í borginni ásamt syni þeirra Vladimir Óla. Dansparið hefur vakið mikla athygli undanfarin ár fyrir enda afar fær á sínu sviði. Þá slógu þau í gegn í Ísland got Talent um árið.

Frásögn Hönnu Rúnar hefur vakið mikla athygli en svo virðist sem hún hafi upplifað martröð ansi margra um hrikalega dvöl á sjúkrahúsi erlendis. Á innan við sólarhring var magi Hönnu Rúnar speglaður, leggöng hennar skoðuð gegn hennar vilja og hún pissaði á hækjum sér á meðan annar sjúklingur kastaði upp við fætur hennar. Hún óttaðist að áður en yfir lyki yrði hún svæfð, skorin upp og líffærin fjarlægð.

„Við vorum búin að eiga æðislegar 2 vikur og ekki nema bara 3 dagar eftir af ferðalaginu okkar. Á laugardeginum veiktist ég og kastaði mjög mikið upp. Kvöldið áður en ég fór að sofa fann ég djús inni í ísskáp sem var mjög súr en ég var svo þyrst svo ég drakk hann samt. Ég fæ oft mikinn brjóstsviða og bakflæði og held mig því vanalega frá öllu súru ásamt fleiru sem fer illa í mig. Ég fór að sofa eftir djús glasið á sunnudeginum og um klukkan rúmlega 3 um nóttina vaknaði ég með hræðilega verki ofarlega hjá brjóstinu, það var sama hvernig ég lá eða stóð, verkirnir voru alltaf jafn sárir og fóru bara versnandi eftir því sem tímanum leið.“ Hún segir að á einum tímapunkti hafi verið eins og hún hafi verið stungin í bringuna með nokkrum hnífum og salti hellt ofan í sárin.

Lá á gólfinu og velti sér um

„Sviðinn og verkirnir voru hryllilegir. Ég var hætt að geta staðið vegna verkja og lá á gólfinu og velti mér um. Nikita leist ekkert á þetta og vildi fara með mig upp á sjúkrahús, en þar sem ég get verið mjög treg þá vildi ég ekki fara strax heldur vildi ég fyrst bíða og sjá hvort verkirnir myndu ekki bara lagast. Eftir rúmar 40 mínútur fann ég það að verkirnir voru ekkert minni svo Nikita hljóp upp í herbergi til foreldra sinna og vakti þau, þeim leist auðvitað heldur ekkert á blikuna svo þau brunuðu með mig upp á sjúkrahús og Nikita kom með. Amma hans Nikita passaði Vladimir Óla á meðan við fórum upp á sjúkrahús enda steinsvaf hann í rúminu sínu. Þessi bílferð ætlaði engan enda að taka, ég lá á gólfinu í bílnum og reyndi að finna mér stöðu til að vera í en það var engin staða sem ég gat fundið mér þar sem verkirnir urðu minni, svo ég var sífellt á hreyfingu til að reyna að dreifa huganum burt frá verkjunum. Þegar við vorum loksins komin upp á sjúkrahús tóku nokkrir læknar á móti okkur, mér var farið að svima og átti erfitt með að hugsa vegna verkja, en um leið og ég steig fæti inná sjúkrahúsið þá fyrst byrjaði martröðin.“

Hanna segist hafa átt erfitt með að horfa í kringum sig því hún hafi lítið annað hugsað en að reyna að anda í gegnum verkinu.

Látin leggjast á harðan bekk

„Það eina sem ég sá voru tvær konur sem voru í klossum, hvítum kjólum og með hatta, ég man að það fyrsta sem ég hugsaði var að þær minntu mig á læknana í hryllingsmynd sem ég hafði séð því þær voru eins klæddar. Ég var sett inn í herbergi og ég látin leggjast niður á harðan trébekk því þarna voru auðvitað engin mjúk rúm. Ég heyrði læknana vera að tala saman en ég skildi ekkert þar sem þau töluðu rússnesku, þó ég skilji aðeins í rússnesku og geti bjargað mér þá skil ég ekki þetta læknamál og þegar talað er svona hratt. Þeir skoðuðu mig, mældu blóðþrýstinginn og settu línurit til að athuga hjartað, síðan fóru þeir út. Nikita þurfti að vera frammi til að fylla út upplýsingar um mig og það tók góðan tíma að fylla út öll blöðin. Mamma hans Nikita sat inni hjá mér og reyndi að róa mig á meðan.“ Hanna lá þarna á vinstri hliðinni og snéri baki út að gólfi.

„Mamma hans Nikita fór fram til að heyra í læknunum og athuga hver staðan væri. Ég lá ein inni í smá stund þegar ég heyrði einhvern koma inn um dyrnar, allt í einu var síðan gyrt niður um mig og ég sprautuð í rassinn. Mér brá mjög mikið þegar sprautunni var þrykkt inní rasskinnina mína, þetta var ekkert svona sæt þunna nál eins og heima á Íslandi heldur kýs ég að kalla þetta prjón. Ég varð mjög reið yfir því að læknirinn hafi komið inn og girt niður um mig án þess að láta mig vita og var sprautuð með einhverju sem ég vissi ekkert hvað væri, mér brá þegar hann sprautaði mig því fyrst hélt ég að þetta væri Svetlana mamma hans Nikita að koma til baka. Stuttu eftir að ég var sprautuð kom Nikita inn í herbergið til mín, ég spurði hann hvort hann vissi hvað ég hefði verið að fá, en hann vissi ekki einu sinni að það hefði einhver komið inn og hjúkrunarfræðingarnir vissu heldur ekkert, ekki var það eitthvað til að róa mig. Það þurfti að finna lækninn sem kom inn til að finna út hvað mér hefði verið gefið, ég gat auðvitað ekkert hjálpað þar sem ég sá aldrei lækninn almennilega.“

Keyrði eins og glanni

Hanna veit ekki enn þann dag í dag hvað það hafi verið sem var sprautað í hana.

„Það eina sem ég veit er að þetta var eitthvað til að opna fyrir æðarnar. Áður en ég vissi af var ég  inní sjúkrabíl liggjandi í grjóthörðu stálrúmi í engu belti, ég lá laus og hafði bara rúmið sjálft og veggina á bílnum til að halda mér í og styðja mig við. Við keyrðum í sirka 20 mínútur því það þurfti að fara með mig á annað sjúkrahús. Bílstjórinn sem keyrði bílinn keyrði eins og glanni og ég var nokkrum sinnum næstum dottin af rúminu enda hafði ég eiginlega ekkert til að halda mér í. Vegurinn sem við keyrðum á var svo holóttur eins og mjög slæmur sveitavegur heima á Íslandi að bílinn hoppaði og skoppaði. Þegar við svo komum uppá sjúkahúsið var ég sett í hjólastól og það kom hjúkrunafræðingur á móti okkur (önnur svona með hvítan hatt í hvítum kjól og í klossum), nema á þessari var ekki til neitt sem hét bros eða kurteisi. Hún öskraði á alla sem komu nálægt og skammaðist í hinum hjúkrunarfræðingunum sem að vísu skömmuðust á móti. Ég var í sjokki fyrst þegar ég heyrði hvernig þær töluðu við hvor aðra en Nikita og mamma hans sögðu að svona væri þetta hér svo ég ætti bara að láta sem ég heyrði ekki í þeim.“

Starfsmaður skjúkrahússins sofandi á vakt.mynd/hanna rún
Hún bætir við að Nikita hafi varla mátt tala við hana þarna.

„Og foreldrar hans urðu að labba vel fyrir aftan svo hún færi ekki að öskra á þau. Hún sagði mér að standa upp og leggjast á trébekk og bíða eftir lækninum sem ætlaði að kíkja á mig, Nikita og foreldrar hans komu svo og biðu með mér. Við vorum búin að bíða frekar lengi þegar mamma hans Nikita spyr lækninn hvort það sé nokkuð langt í hann því ég sé sárkvalin og erfitt að bíða. Læknirinn trylltist! Hann svoleiðis öskraði á hana, þau fóru síðan að rífast og í miðjum rifrildum kallar hann mömmu hans Nikita hóru og segir henni svo að halda kjafti. Ég var gjörsamlega orðlaus og sagði við Nikita að ég vildi alls ekki að þessi læknir kæmi nálægt mér! En það var ekkert annað í stöðunni en að láta hann sko skoða mig. Hann rétt kíkti á mig og sendi mig svo burt. Hjúkrunarkonan  kom aftur og sagði mér að flýta mér að setjast í hjólastólinn og keyrði mig svo af stað. Nikita spurði hana hvert hún væri nú að fara með mig, en hún þóttist ekki heyra í honum og ýtti honum í burtu. Nikita varð auðvitað ekki sáttur með að hún ýtti honum þegar hann bara spurði hvert við værum að fara, svo þau fóru eitthvað að þræta.“

Öskrað á mig

Henni hafi því næst verið rúllað inn í herbergi á ganginum.

„Ég sat í hjólastólnum og vissi ekkert hvað væri verið að fara að gera, allt í einu kom kona að mér og fór að öskra á mig en ég skildi auðvitað ekki orð af því sem hún sagði. Hún ýtti mér í burtu og hjúkkan sem keyrði mig í stólnum sá mig vera frammi á gangi og heyrði í hinni hjúkrunarkonunni öskra eitthvað á mig svo hún kom og fór að skammast í henni til baka. Þetta var semsagt bara vitlaust herbergi sem hún lét mig inn í, hún átti að setja mig í næsta við hliðina, hún ýtti mér yfir í næsta herbergi og bankaði á hurðina. Önnur kona í klossum og kjól opnaði og rétti fram höndina, ég rétti hægri höndina fram því ég hélt hún væri að fara að heilsa mér en þá stakk hún nál djúpt inní puttann á mér. Hún fyllti lítið mjótt glas af blóði og lokaði svo á okkur, sagði ekki einu sinni bless né gaf mér pappír svo ég gæti þurrkað blóðið, ég notaði því bara hvítu peysuna mína til að þurrka mér í. Ég var orðin mjög stressuð því mér leist ekkert á þetta fólk sem var að vinna þarna allir öskrandi, pirraðir, reiðir og mjöööög dónalegir.“



Þá hafi konan haldið áfram að keyra henni eftir ganginum.

„Mér var orðið mál að pissa svo ég reyndi að kalla á Nikita, sem var frekar langt fyrir aftan því þið munið hann mátti ekki vera of nálægt mér. Ég bað hann að segja konunni að stoppa því ég yrði að komast á klósettið, það var ekki vinsælt að ég þurfti að fara að pissa svo pirruð ýtti hún mér á klósettið og sagði mér að flýta mér…. ég átti ekki til orð þegar ég opnaði klósettherbergið, gólfið var allt rennandi blautt og drulluskítugt með blautum pappír úti um allt, það var búið að setja einhverskonar pottlok á klósettið i staðinn fyrir setuna sem var greinilega dottin af, klósettið var troðfullt af hlandi og saur. Ég setti peysuna mína yfir nefið og reyndi að anda svoleiðis því lyktin var hryllileg. Ég stóð fyrir ofan klósettið og passaði mig að snerta ekkert og reyndi að miða ofan í klósettið. Vaskurinn var fullur af blóði svo það var ekki séns að þvo sér þar. Ég flýtti mér útaf klósettinu og sagði við Nikita að ég yrði að komast burt héðan!!!… Hjúkkan sagði að ég ætti að fara í röntgen svo Nikita sagði mér að þrauka og fara og leyfa þeim að mynda mig.“

Kíkt upp í leggöngin

Hún var því næst sett í röntgen og teknar voru myndir af henni.

„Þegar við vorum búin þar var farið með mig inn í herbergi þar sem 5 læknar voru eitthvað að spjalla, við hliðina á þeim var opið herbergi sem voru án dyra og þar sat kona. Hún kom labbandi að mér og sagði mér að fara úr öllu að neðan, Nikita spurði hana hvers vegna ég þyrfti þess, hún sagði að það stæði á blaðinu sem hún fékk að hún ætti að kíkja upp leggöngin og skoða þar og ég ætti að drífa mig. Ég bað Nikita vinsamlegast að spyrja hana hvers vegna í ósköpunum þau vildi skoða leggöngin á mér þegar ég væri með verk í brjóstinu. Þau vildu athuga innvortis blæðingar sem ég vissi svosem að væri ekki en ákvað að vera ekkert að þræta í þessu liði þar sem ég vissa að það þýddi lítið. Nikita  spurði hana síðan hvort ég fengi ekki eitthvað smá skýli til að klæða mig úr og kannski slopp, hún horfði á hann með svip og sagði svo að það væri ekkert svoleiðis hér. Ég klæddi mig því úr og reyndi að toga peysuna aðeins niður svo ég væri ekki að labba allsber fyrir framan hina. Konan sagði svo Nikita að fara burt á meðan, ég var fljót að segja við hana að ég vildi hafa hann með inni!!…en það var sko alls ekki í boði! Nikita sagðist ekkert ætla að fara neitt og spurði hana hversvegna hann mætti ekki vera hjá mér, þá var ástæðan sú að ég er kona og hann maður og það ætti ekki við að hann væri með.“

Nikita hafi þá reynt að halda rónni og sagt að hann væri eiginmaður Hönnu.

„Og við ættum barn saman og hann hefði verið viðstaddur fæðinguna og það væri nú ekkert þarna sem hann hefði ekki séð. Henni fannst mjög sérstakt að ég vildi leyfa honum að koma með og hún var hálf hneyksluð þegar hann sagði henni að hann hefði verið með mér þegar ég átti Vladimir Óla. Þegar hún var búin að skoða og allt leit vel út (bara eins og ég vissi) og ekkert að sjá sagði hún mér að ég mætti fara. Ég spurði hvort ég mætti ekki fá pappír til að þurrka allt gelið sem ég var með þarna hálf lekandi á milli fótanna, en hún sagði að það væri ekkert svoleiðis á boðstólnum. Ég klæddi mig því nærbuxurnar og náttbuxurnar mínar og horfði svo á gelið koma í gegnum buxurnar. Þegar við komum fram komu  nokkrir læknar sem fóru að tala við Nikita og foreldra hans. Ég skildi ekkert um hvað þau voru að segja svo ég sat bara og beið í hjólastólnum í hvítu blóðugu peysunni minni og í náttbuxunum mínum sem litu út fyrir að vera pissublautar út af þessu fjárans geli sem konan var ekkert að spara! Eftir smá stund heyrði ég svo að þau fóru öll að rífast. Ég kallaði á Nikita og spurði hann hvað væri eiginlega í gangi! Þá sagði hann mér að læknarnir vildu fara með mig í rannsókn og þau mættu koma eftir 3 sólarhringa og sækja mig EF allt yrði í lagi!!! Eftir dágóðan tíma af rifrildum og þrasi þá gáfu læknarnir eftir og sögðu að mamma hans Nikita mætti koma með mér. Nikita var ekki alveg sáttur þar sem hún talar jú enga ensku og gæti því ekki þýtt neitt fyrir mig. Hún hafði því símann sinn með sér til þess að þau gæti verið í símasambandi og hann þýtt það sem ég skildi ekki. Nikita og pabbi hans fóru heim til Vladimirs Óla og voru hjá honum á meðan ég og mamma hans héldum áfram lengra inn á sjúkrahúsið.“

Heldur ósmekklegt klósett.mynd/hanna
Hann segir að þarna hafi hjartað hennar farið að slá hraðar.

„Nú var ég ein með mömmu hans Nikita sem talaði enga ensku og ég vissi ekkert hvað beið mín. Ég var sett inn í herbergi sem lyktaði ógeðslega af myglu og mikilli mengun því það var vinnubíll fyrir utan og gluggarnir allir opnir og mér leið eins og ég væri stödd á bensínstöð. Ég settist á rúmið en vildi ekki leggjast þar sem koddinn sem ég fékk var allur gulur og lyktaði illa. Mamma hans Nikita vafði úlpunni sinni utanum koddann svo ég gæti legið. Eftir stutta stund kom hjúkka inn til mín klædd í gúmmíhanska. Hún opnaði hurðina með hönskunum og tók síðan upp símann sinn sem hringdri ofan í vasanum hennar. Þegar hún var búin að tala í símann opnaði hún nálarpakka og stakk mig í höndina með sömu hönskunum. Ég spurði mömmu hans Nikita hvað hún væri að fara að gera, þá var verið að fara að gefa mér verkjalyf og eitthvað meira í æð sem ég hef ekki hugmynd um hvað var. Ég man að ég hugsaði með mér að nú fengi ég einhverja eitrun og guð má vita hvað hún var búin að gera með þessum hönskum. Eftir að hún var búin að stinga þessari þykku nál inní mig setti hún snúru við og labbaði svo út án þess að segja neitt. Ég hélt hún myndi koma aftur til að setja eitthvað límband eða grisju yfir til að halda nálinni en svo var ekki. Ég horfði á nálina hanga út og snúran togaði í nálina sem var mjög vont, allt var opið og ég mátti ekki hreyfa mig. Það leið ekki langur tími þangað til ég datt út og hreinlega rotaðist. Ég veit ekki hversu lengi ég svaf en ég vaknaði svo við að ég þurfti mikið að pissa. Mamma hans Nikita sótti hjúkrunarfræðing til að láta hana vita að ég þurfti á klósettið.“



Reifst við hjúkrunarfræðinginn

Hjúkkan sótti því næst kopp undir rúmið sem var ennþá með gömlu hlandi í sem var orðið klístrað.

„Mamma hans Nikita var á undan mér að stoppa hana af og tók koppinn af henni, og spurði hvort það væri ekki hægt að taka nálina úr rétt á meðan ég myndi skjótast á klósettið en það var ekki í boði. Ef ég vildi pissa þá væri það koppurinn eða ég yrði að halda í mér, síðan labbaði hún út pirruð. Mamma hans Nikita fór og skolaði koppinn fyrir mig og hjálpaði mér svo með þennan bévítans kopp sem ég lét mig hafa að pissa í. Eftir smá stund kom hjúkrunarfræðingurinn aftur inn og setti upp nýja poka. Ég sagði henni að ég vildi ekki meiri verkalyf eða neitt af þessu sem þau væru að dæla í mig. Mamma hans Nikita byrjaði að rífast við hjúkkuna og sagði mér svo að lyfin sem hún hafi ætlað að gefa mér myndu svæfa hest og ég hefði sofið í einhverja daga hefðu þau gefið mér þetta allt. Eftir smá stund kom hún til baka og setti bara upp 4 poka, ég sofnaði svo aftur stuttu seinna. Eftir einhverja stund vaknaði ég aftur og sá nokkra lækna vera inní herbergi, ég heyrði að það gekk mikið á og mamma hans Nikita fór að öskra á þá, þau fóru fram á gang um leið og þau sáu að ég var vöknuð. Ég vissi að það var eitthvað mikið í gangi. Mamma hans Nikita strunsaði aftur inn í herbergi og reyndi að útskýra fyrir mér hvað væri í gangi, ég átti erfitt með að skilja hana en það sem ég skildi og var nokkuð viss um að ég væri að skilja rétt, þá vildu þau fara með mig inná skurðstofu og skera mig upp!!!!! En hún var að reyna að segja nei við þá. Ég sagði henni að hringja í Nikita undir eins. Það var erfitt að ná í hann, hún reyndi nokkur símtöl en það svaraði aldrei. Ég gat ekki skilið hversvegna þeir vildu skera mig upp.“

Þarna langaði Hönnu að hlaupa í burtu útaf spítalanum.

„Mamma hans Nikita hélt áfram að reyna að ná í hann þegar hann loksins svaraði. Hún sagði honum hvað væri í gangi og rétti mér svo símann. Nikita sagði mér hvað mamma sín hafi sagt og ég skildi hana rétt, læknarnir vildu fara með mig inná skurðstofu og skera mig upp bara svona til að sjá hvort að líffærin litu vel út,“ segir Hanna og þá hafi Nikita orðið brjálaður.

Varð að fara í magaspeglun

„Læknarnir þarna í Penza hafa greinilega mikinn áhuga á að skera fólk því þegar mamma hans Nikita var yngri var mótorhjól sem keyrði á hana og hún meiddist í fætinum, læknarnir vildu taka fótinn af henni en amma hans Nikita þurfti mikið að leita og hafa fyrir því að finna lækni sem vildi ekki bara taka fótinn af henni. Allavega eftir mikil rifrildi og allir læknarnir pirraðir þá var ákveðið að fara með mig í magaspeglun. Ég sagðist heldur ekki vilja það og bað Nikita sem var í símanum að segja þeim að ég vildi ekki fara í magaspeglun. Nikita sagði þeim það skýrt og sagðist ætla að koma og sækja mig því þeir væri greinilega ekki alveg í lagi. Þeir sögðu við Nikita að ég myndi ekki fara í magaspeglun en um leið og læknirinn skelltu á hann sögðu þeir mér að setjast í hjólastólinn, ég sagði þeim að ég ætlaði ekki í magaspeglun, það var ekkert hlustað á mig og ég var keyrð eftir endalausum göngum sem litu úr eins og í hryllingsmynd. Síðan var farið með mig inn í herbergi og ég lögð á bekk þar sem ein konan hélt í fæturnar mínar, ein sá um að halda hausnum mínum og svo var það læknirinn sem sá um restina. Það var settur uppí mig hólkur svo það var engin leið fyrir mig að bíta saman né streitast á móti. Ég sá lækninn draga fram snúru sem var JAFN ÞYKK og ég er EKKI að ýkja en snúran var jafn þykk og garðslangan sem við erum með útí garði.“

Nikita á ganginum á spítalanum.mynd/hanna rún
Hanna þekkir vel að fara í magaspeglun á Íslandi og svona sé ekki eðlilegt.

„Þegar ég sá snúruna reyndi ég að segja NEI!!! en ég gat það ekki og auðvitað þóttust þau ekkert skilja enda var ég með þennan helvítis hólk uppí mér. Læknirinn tróð slöngunni ofan í mig og ég kúgaðist og kúgaðist, fyrst náði ég ekki andanum snúran var svo þykk og mér leið eins og það væri verið að kæfa mig. Ég reyndi að róa sjálfa mig niður og hugsaði um eitthvað fallegt. Það var mjög erfitt að anda og ég hélt að læknirinn ætlaði aldrei að taka snúruna upp. Hann var mjög harðhentur og ég fann hvernig snúran ýtti á magann og allt inni í mér. Ég horfði á mömmu hans Nikita sem að grét og grét og gat ekkert gert. Þegar hann var loksins búinn hrósaði hann mér nú í endann og sagðist sjaldan hafa fengið svona duglegan sjúkling inn til sín sem gat legið svona kyrr og sparkaði ekki i hann. Ég reyndi bara að brosa til baka, settist síðan í hjólastólinn og leyfði þeim að ýta mér aftur upp í herbergi.“

Átti að fasta í þrjá sólahringa

Hún segir að gangarnir hafi verið draugalegir og ljótir.

„Þegar það var verið að fara með mig aftur upp í herbergi leið mér svo illa, mér var flökurt enda ekkert búin að borða, ég saknaði Vladimir Óla og vildi fara heim til hans. Ég reyndi að spyrja hvort ég fengi mat en mér var ekki svarað, svo ég bað mömmu hans Nikita að spyrja hvort ég mætti borða. Hjúkkan sagði að ég yrði að fasta í 3 sólarhringa en ég mætti fá smá vatn ef ég væri þurr í hálsinum. Þessar fréttir voru ekki til að bæta skapið mitt. Það var farið með mig upp í herbergið mitt og þriðja eða fjórða nálin sett upp. Ég sofnaði í einhvern tíma og vaknaði svo. Þegar ég vaknaði sá ég að pokarnir voru að verða tómir og hjúkkan stóð yfir þeim tilbúin að taka nálina úr. Eftir að hún tók nálina þurfti ég að pissa aftur, mamma hans Nikita þurfti aðeins að styðja við mig þar sem jafnvægið var ekki alveg það besta eftir öll lyfin. Eins og alltaf vorum við beðnar um að vera fljótar því það var ekki vitað hvað væri næst á dagskránni og ég yrði því að vera inni í herbergi ef það kæmi læknir. Þegar við komum á klósettið sat kona þar inni og var að æla í vaskinn en henni gekk eitthvað illa að hitta. Ég var látin pissa við hliðina á henni, svo á meðan ég stóð yfir klósettinu og passaði mig að snerta ekkert og á sama tíma að miða ofan í þá lá konan við lappirnar á mér og ældi.“

Eftir 22 klukkustundir á spítala í Rússlandi fékk Hanna loksins að fara heim. Þar náði hún að nærast og sofna loksins. 

Mögnuð frásögn frá Hönnu Rún sem má lesa meira um á bloggsíðunni hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×