Þór Þorlákshöfn er meistari meistaranna í körfubolta í karlaflokki í fyrsta skiptið eftir 74-69 sigur á KR í DHL-höllinni í kvöld í Meistarakeppni KKÍ.
Var þetta endurtekning frá bikarúrslitaleiknum í Laugardal þar sem KR-ingar höfðu betur en KR saknaði Jóns Arnórs Stefánssonar og Pavels Ermolinskij í kvöld.
Liðin skiptust á forskotinu framan af í fyrsta leikhluta en Þórsarar náðu forskotinu rétt fyrir lokin og leiddu 18-15 að fyrsta leikhluta loknum.
KR-ingar minnkuðu muninn niður í eitt stig í upphafi annars leikhluta en Þórsarar náðu þá aftur tökum á leiknum og náðu átta stiga forskoti rétt fyrir lok fyrri hálfleiks 38-30.
Þórsarar svöruðu af krafti í upphafi seinni hálfleiks eftir fjögur stig KR-inga í röð með 11-2 áhlaupi en KR-ingar svöruðu um hæl með 13-2 áhlaupi og minnkuðu muninn í sex stig fyrir lokaleikhlutann.
KR-ingar náðu að minnka muninn niður í eitt stig í upphafi fjórða leikhluta en lengra komust þeir ekki. Þórsarar settu í gír með 11-3 kafla sem reyndist of stórt bil fyrir KR til að brúa á lokamínútunum.
Tobin Carberry fór á kostum með 28 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar í liði Þórs en Maciej Stanislav Baginski kom næstur með 22 stig.
Í liði KR var það Brynjar Þór Björnsson sem var stigahæstur með 21 stig, 6 stoðsendingar og 6 fráköst en Sigurður Þorvaldsson var með 19 stig.
