Lífið

Segir yfirmann kvikmyndavers í Hollywood hafa nauðgað sér

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Rose McGowan hefur ekki enn nefnt manninn á nafn.
Rose McGowan hefur ekki enn nefnt manninn á nafn. Vísir/Getty
Leikkonan Rose McGowan segist hafa verið nauðgað af yfirmanni kvikmyndatökuvers. Hún tísti tíðindunum á Twitter síðu sinni og myllumerkti færsluna með „whywomendontreport“. Þar sagðist hún ekki hafa kært nauðgunina þar sem lögfræðingur hefði mælt á móti því þar sem hún hefði áður leikið í kynlífssenu í bíómynd.

Rose nefnir manninn ekki á nafn en segir í annarri færslu að fyrrverandi kærasti sinn hafi selt dreifingarréttinn á kvikmynd sem þau unnu saman til mannsins sem nauðgaði henni. Þar er talið að hún eigi við Robert Rodriguez leikstjóra en þau unnu m.a. saman að kvikmyndinni Grindhouse sem var unnin í samstarfi við Quentin Tarantino.

McGowan hefur áður gefið í skyn að atvik hafi átt sér stað í hennar lífi sem olli því að hún hafi verið hunsuð af kvikmyndaiðnaðinum. Í viðtali við Buzzfeed á síðasta ári sagði hún að það væri vel þekktur yfirmaður í Hollywood sem væri ítrekað að brjóta af sér við ungar leikkonur en kæmist þó alltaf upp með hegðun sína. Þar sagði hún þó ekki að hún hefði sjálf verið fórnarlamb. Rose hefur ekki enn nefnt þann mann á nafn eða tjáð sig um hvort þar hafi hún átt við sama mann og hún sakar nú um að hafa nauðgað sér. Þetta er í fyrsta skiptið sem hún talar opinskátt um málið í fjölmiðlum.

Hér fyrir neðan má sjá tístið hennar en í kjölfarið hefur myndast mikil umræða á síðunni hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×