Lífið

Danshöfundur Beyoncé kennir Íslendingum

Kjartan Guðmundsson skrifar
Þær Stella Rósenkranz og Kara Hergils hjá Dansstúdíó World Class eru spenntar fyrir komu hinna heimsfrægu dansara Hollywood og KK Harris til landsins.
Þær Stella Rósenkranz og Kara Hergils hjá Dansstúdíó World Class eru spenntar fyrir komu hinna heimsfrægu dansara Hollywood og KK Harris til landsins. Vísir/Eyþór
„Þegar við sögðum frá því að þau væru að koma til Íslands fóru dansararnir okkar að gráta. Það er bara þannig. Við erum þar,“ segir Stella Rósenkranz, deildarstjóri og danskennari hjá Dansstúdíó World Class, eða DWC. Ástæðan fyrir spenningnum er koma tveggja af stærstu dönsurunum á heimsvísu í dag til landsins, þeirra Hollywood og KK Harris, sem verða með danstíma á DWC Dance Camp sem fer fram í fyrsti skipti dagana 14. og 15. október í nýrri World Class stöð í Breiðholti.

„Það má líkja þessu við það að Lionel Messi og Cristiano Ronaldo kæmu hingað og héldu fótboltanámskeið. Þetta eru stórstjörnur. Við höfum aldrei fengið svona stór nöfn hingað áður.“





Jose Hollywood
Stella segist afar spennt fyrir því að geta flutt slíkar „sleggjur“ í dansbransanum til landsins, eins og hún orðar það. „Við gerum þetta til að færa íslenska dansara nær þessum vinsælu erlendu dönsurum og við viljum efla danssamfélagið á Íslandi með því að flytja inn svona stór nöfn,“ útskýrir hún og bætir við að bæði Hollywood og KK Harris séu risastórar stjörnur í hinum ört vaxandi dansheimi.

Hollywood er einn af danshöfundum hinnar gríðarvinsælu tónlistarkonu Beyoncé og hefur einnig samið dansa fyrir tónlistarkonur á borð við Rihönnu, Nicky Minaj og Jennifer Lopez, á meðan KK Harris hefur meðal annars unnið með Britney Spears og er núna aðaldansari tónlistarmannsins Usher.

Stella segir þau Hollywood og KK Harris einnig eiga það sameiginlegt að njóta mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum og eiga þar fylgjendur í milljónavís. „Þessir vinsælustu dansarar í dag eru orðin stór vörumerki því dansheimurinn er orðinn svo stór. Fólk fylgist með þeim á YouTube, Instagram og öllum þessum samfélagsmiðlum og lærir þannig dansana. Í gamla daga tóku allir dansa upp á VHS og lærðu þannig, en í dag er aðgengið orðið svo miklu betra. Sumir verða hissa á þessari aðdáun og spyrja hvað sé svona merkilegt við einhverja dansara, en staðreyndin er sú að í augum margra eru þessir vinsælu dansarar miklar fyrirmyndir,“ segir Stella og bætir við að það sé engin tilviljun að dansinn njóti svo mikilla vinsælda sem raun ber vitni.





KK Harris
„Orkan sem fylgir því að dansa er svo jákvæð. Maður fær útrás fyrir það sem maður elskar með því að dansa og það er spennandi að læra af þeim bestu. Alveg eins og maður verður æsispenntur þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu skorar mark eða sér uppáhaldstónlistarmanninn sinn koma fram á tónleikum.“

Aðspurð segir Stella að enginn þurfi að kvíða því að geta ekki fylgt atvinnufólkinu eftir í danskennslunni. „Tímarnir eru opnir öllum og hannaðir þannig að allir dansarar eiga að ráða við sporin, svo ég hvet alla áhugasama til að skrá sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×