Lífið

Ragnar kubbar Lego á YouTube: „Ég er hættur að nenna að skammast mín fyrir þetta“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ragnar er mikill aðdáandi Lego.
Ragnar er mikill aðdáandi Lego. Vísir
„Það er eitthvað róandi við það að gera eitthvað skapandi en eftir forskrift,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn og uppistandarinn Ragnar Hansson sem sett hefur á laggirnar þátt á YouTube þar sem hann leysir lífsins gátur og leikur sér með Lego-kubba í leiðinni.

Út eru komnir tveir þættir og í þeim nýjasta ræðir Ragnar við sálfræðing, í eigin gervi, sem spyr Ragnar af hverju hann sé enn að leika sér með leikföng. Sálfræðingurinn svarar því til að Ragnar sé augljóslega að reyna að endurupplifa æsku sína. Í samtali við Vísi segir Ragnar að það sé ekki fjarri lagi.

„Eftir fjölmörg fullorðinsár að læðast í kringum hillur leikfangaverslananna með börnin mín sem afsökun þá lét ég loks undan þegar barnæska mín og uppeldi sameinaðist á litríkan og fallegan máta með samstarfi The Simpsons og nýju Stjörnustríðs myndanna við Lego,“ segir Ragnar. Honum þyki þó leiðinlegt að samfélagið líti þá hornaugu sem hafi áhuga á hlutum eins og Lego, sem flokkast venjulega undir leikföng fyrir börn.

Sjá einnig: Byggir Simpsons-hús úr legó með syninum

Unglingssonur Ragnars fær stundum að hjálpa.
„Það er ótrúlega leiðinlegt. Þetta er einhversskonar skömm en ég er hættur að nenna að skammast mín fyrir þetta. Hvaða máli skiptir þetta eiginlega?“ spyr Ragnar sem ákvað að sameina áhugamál sín og störf í eitt með þáttunum á YouTube. Ragnar er kvikmyndagerðarmaður, uppistandari og umsjónarmaður Alvarpsins þar sem finna má fjölbreytta flóru hlaðvarpsþátta.

„Ég hef ekki verið með þætti lengi og langaði að byrja aftur. Ég hef mikið verið að horfa á YouTube-þætti og allt í einu small þetta fyrir mér. Ég er með græjunar og ég kann að gera þetta,“ segir Ragnar.

En af hverju Lego?

„Þetta er eins og að púsla, prjóna eða fara í golf. Hugarróandi, litríkt, fallegt og skemmtilegt. Það fyndna er að mörgum finnst Lego vera dýrt og það er alveg rétt en ég held að eitt svona sett kosti svipað mikið og sálfræðitími og þetta gerir meira fyrir mig. Það er réttlætingin mín, ein af mörgum.“

Ragnar er þó ekkert að kubba hvað sem er og þar kemur kvikmynda- og sjónvarpssagan sterk inn en The Simpsons, Star Wars og Back to The Future Lego-sett eiga helst upp á pallborðið hjá Ragnari sem er mjög stoltur af því sem hann hefur kubbað. Líkt og sjá má í þættinum prýða fallegustu settinn veggina á heimili Ragnars. Hann segist þó þurfa að vanda valið enda sé takmarkað pláss fyrir settin í stofunni.

„Ég er með blautan draum um Ghostbusters-stöðina og Helstirnið. Það eru tvo sett sem mig dauðlangar í,“ segir Ragnar að lokum en eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandinu eru bæði þess sett ansi vegleg.

Svona lítur Lego Ghostbuster-stöðin út Svona lítur Lego Helstirnið út

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×