Lífið

Johnny Rotten segist hafa djammað með Vigdísi sem kemur af fjöllum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Setja verður fyrirvara við frásögn Rotten af kvöldinu hans með Íslendingum í Kaupmannahöfn.
Setja verður fyrirvara við frásögn Rotten af kvöldinu hans með Íslendingum í Kaupmannahöfn. Vísir
John Lydon, sem áður var þekktur sem Johnny Rotten söngvari Sex Pistols, segist hafa uppgötvað að stjórnmálamenn gætu verið eins og venjulegt fólk þegar hann djammaði með forseta Íslands, fyrsta kvenforseta í lýðræðisríki, í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum. 

Greinilegt er að Rotten á við frú Vigdísi Finnbogadóttur sem kannast reyndar ekkert við fund þeirra Rotten þótt hún hafi verið mikið í Kaupmannahöfn á árunum 1996 til 2010.

Rotten segir frá því í viðtali við Ólaf Pál Gunnarsson í Rokklandi á Rás tvö að hann hafi langað að koma í heimsókn til Íslands síðan hann skemmti sér óvænt með Íslendingum í Kaupmannahöfn árið 2010 eða 2011.  Þar hafi Vigdís verið ásamt íslenskum þingmönnum.

Sungu íslensk þjóðlög

„Við hittum hana á bar í Kaupmannahöfn. Hún var frábær félagsskapur,“ segir Rotten. Hann hafi í fyrstu fylgst með úr fjarlægð þar sem Vigdís og þingmennirnir hafi sungið íslensk þjóðlög og svo hafi hann bæst í hópinn. Í framhaldinu hafi írsk þjóðlög einnig verið sungin.

Rotten segir að þarna hafi hann í fyrsta skipti náð mannlegu sambandi við stjórnmálamenn. Síðan hafi hann langað að heimsækja Ísland og nú hafi hann loksins fengið tækifæri þegar opna átti pönksafn hér á landi. Vel hafi farið á því að það var opnað í klósetti en safnið var sem kunnugt er opnað í Núllinu í Bankastræti.

Blaðamaður Daily Mail og Richard Branson fengu það einhvern veginn út að Anna Sigurlaug Pálsdóttir ætlaði út í geim. Um misskilning reyndist að ræða.Vísir
Kannast ekkert við Rotten

Vigdís Finnbogadóttir segist í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis ekki muna eftir því að hafa verið með íslenskum þingmönnum á hótelbar í Kaupmannahöfn. 

„Eins og það hafði nú annars verið gaman!“ segir Vigdís og slær á létta strengi.

„Ég var reyndar mikið í Kaupmannahöfn frá 1996 til 2010 í formannsstússi með hópnum sem kom upp Norðurbryggju og bjó þá í íbúð úti á Friðriksbergi - svo ég var óvart ekki í námunda við hótelbari.“

Vigdís segist vera fegin að Johnny Rotten beri „henni“ vel söguna.

„Vona að þetta hafi verið einhver sem ég myndi vilja líkjast!“

Ekki í fyrsta skipti

Ljóst virðist vera að Rotten er að rugla Vigdísi saman við aðra íslenska konu en óljóst hver það gæti verið. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íslenskum framakonum er ruglað saman af erlendum stjörnum. Fræg er frétt Daily Mail sem fullyrti að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, ætlaði út í geim. Það hafði miðillinn eftir Richard Branson.

Í ljós kom að það var Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú, sem hafði sýnt geimferðum áhuga en þau Branson munu vera nokkuð góðir vinir.


Tengdar fréttir

Johnny Rotten kemur fram á Iceland Airwaves

Enski tónlistarmaðurinn John Lydon, áður Johnny Rotten úr pönksveitinni Sex Pistols, opnar íslenska Pönksafnið og kemur fram á Airwords, bókmenntadagskrá Iceland Airwaves.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×