Viðskipti innlent

Spá því að einkaneysla og hagvöxtur muni aukast

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Í spánni kemur fram að hagvöxtur árið 2016 verði 4,8 prósent.
Í spánni kemur fram að hagvöxtur árið 2016 verði 4,8 prósent. vísir/ernir
Vöxtur í fjárfestingu, ferðaþjónustu og neyslu er meiri en áætlað var og styrking gengisins mun svo hafa þau áhrif að verðbólga mun aukast seinna en upphaflega var haldið. Vaxandi verðbólga er þó í kortunum fyrir árin 2017-2018. Draga mun svo úr henni eftir það. Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birtist í Hagtíðindum. Spáin nær til áranna 2016-2022. Síðasta spá Hagstofunnar kom fram 27. maí síðastliðinn.

Í spánni kemur fram að hagvöxtur árið 2016 verði 4,8 prósent og að einkaneysla aukist um 7,1 prósent. Fjárfesting eykst um 21,7 prósent og samneysla um 1,8 prósent.

Hagvöxturinn árið 2017 verður samkvæmt spánni 4,4 prósent. Einkaneysla eykst um 5,7 prósent, fjárfesting um 7,4 prósent og samneysla um 0,9 prósent. Ástæðuna fyrir þessum hagvexti má rekja til aukna fjárfestinga og neyslu en þessi þróun hefur farið vaxandi frá árinu 2014.

Eftir 2017 er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði um 2,6-3 prósent. Einkaneysla mun þá aukast um 2,5 – 3,7 prósent, fjárfesting um 1,4-4,2 prósent. Samneysla mun aukast og verða um 1,5 prósent ár hvert.

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður neikvætt fyrst um sinn fyrir tilstilli þessa vaxtar í fjárfestingu, ferðaþjónustu og neyslu en viðskiptajöfnuður verður hins vegar jákvæður út spátímann.

Vinnumarkaður mun halda áfram að styrkjast en þó liggur fyrir að draga muni úr atvinnuaukningu eftir 2017. Í spánni kemur einnig fram að laun og kaupmáttur hafi hækkað talsvert undanfarið og talið er að óvissa um launaþróun verði mun minni ef kjarasamningar halda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×