Bílar

Audi hættir við 420 hestafla 2,0 lítra vélina

Finnur Thorlacius skrifar
Audi TT RS átti að fá þessa öflugu vél.
Audi TT RS átti að fá þessa öflugu vél.
Audi sýndi árið 2014 TT Quattro Sport Concept tilraunabíl og var hann með hreint ótrúlegt afl miðað við lítið sprengirými vélarinnar í bílnum. Þessi vél er fjögurra strokka og með 2,0 lítra sprengirými, en samt sem áður kreisti Audi 420 hestöfl úr henni. Meiningin var að nota þessa vél í nokkra bíla innan stóru Volkswagen bílafjölskyldunnar, en nú hefur Audi tekið þá ákvörðun að hætta við framleiðslu þessarar vélar.

Það var Friedrich Eichler, fyrrum vélarhönnuður hjá AMG sportbíladeild Mercedes Benz sem þróaði þessa vél, sem og EA888 2,5 lítra og 400 hestafla vélina frá Audi. Til stóð að framleiða báðar þessar vélar í aflmiklar útgáfur Audi bíla, en dísilvélasvindl Volkswagen hefur gert það að verkum að hætt hefur verið við þróun þeirra bíla og véla sem ekki teljast nauðsynleg fyrir Volkswagen bílasamstæðuna.

Hin öfluga fjögurra strokka 2,0 lítra vél sem nú hefur orðið fyrir niðurskurðarhnífnum dugði til að koma Audi TT RS í 100 km hraða á litlum 3,7 sekúndum. Hámarkstog hennar náðist milli 2.400 og 6.300 snúningum og mesta afl við 6.700 snúninga. Ókosturinn við þessa vél er hinsvegar sá að hún er dýr í framleiðslu og því fór sem fór.

Líklegt er talið að ný 2,9 lítra V6 vélin sem hönnuð er sameiginlega af Porsche og Audi og skilar 440 hestöflum verði ofaná í bílum Volkswagen bílafjölskyldunnar sem krefjast mikils afls. Litla fjögurra strokka vélin hefði þó verið miklu léttari, en með hátt í sama afl og fyrir vikið hefðu aksturseiginleikar orðið líklega betri með henni.






×