Innlent

Fóstbræður í hundrað ár

Una Sighvatsdóttir skrifar
Í gamla KFUM heimilinu við Amtmantsstíg komu nokkrir ungir menn saman þann 18 nóvember 1916 og stofnuðu kór. Sá fékk síðar heitið Fóstbræður og þessi elsti samfleitt starfandi karlakór landsins fagnar því hundrað ára afmæli nú um helgina.

Fóstbræður sjálfir eru á öllum aldri og hafa sumir sungið með kórnum í áratugi. Þeir sem lengstan starfsaldur hafa fengu í dag það hlutverk að afhjúpa sérstakan minningarskjöld um stofnun kórsins við Amtmannsstíg, en það voru þeir Aðalsteinn Guðlaugsson sem gekk til liðs við Fóstbræður árið 1951 og Sveinn Pálsson sem sungið hefur með kórnum frá 1968. Báðir eru þeir komnir yfir nírætt en eru enn virkir í kórstarfinu.

Bræðralag meðal fóstbræðra

„Þetta er besti félagsskapur sem hægt er að hugsa sér," sagði Aðalsteinn í samtali við fréttastofu í dag. Kórstarfið snýst enda ekki aðeins um söng heldur ekki síður um félagsskapinn og mátti sjá í dag að mikið bræðralag ríkir meðal Fóstbræðra, sem komu fánabera til bjargar og klæddu hann í vettlinga og húfu þegar frostið sverfði að.

Frá KFUM heimilinu var gengið fylktu liði niður Amtmannsstíg að Lækjargötu þar sem lagður var blómsveigur á minnisvarða sr. Friðriks Friðrikssonar stofnanda KFUM- og K, en úr kærleiksávarpi hans til karlakórs KFUM sagði „Sönglistin á að eflast við íþrótt yðar og glæðast".








Fleiri fréttir

Sjá meira


×