Innlent

Leitað að börnum sem gætu átt í erfiðleikum með lestur

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Talið er að tólf prósent barna í 1.bekk í grunnskólum landsins geti átt í miklum erfiðleikum með lestur. Frá árinu 2011 hefur sérstaklega verið leitað eftir þeim til að geta gripið inn í og veitt þeim viðeigandi aðstoð sem fyrst.

Nýjar niðurstöður Menntamálastofnunar sýna að lestrarkunnáttu grunnskólabarna við loka skólagöngunnar er ábótavant. Þegar lestrarkunnátta þeirra er mæld sést að allt að þriðjungur þeirra sem eru að ljúka 10. bekk ná ekki lágmarksviðmiði stofnunarinnar í lesfimi.

Frá árinu 2011 hefur markvisst verið reynt að finna snemma á grunnskólagöngu barna þau börn sem eiga í erfiðleikum með lestur. Þetta er gert með sérstökum skimunarprófum. „Þau gera kennurum kleift að mæta þörfum barna strax í 1. bekk og setja inn inngrip sem hæfa þörfum hvers og eins,“ segir Steinunn Torfadóttir lektor við menntavísindavið Háskóla Íslands.

Steinunn segir að strax við upphaf skólagöngu sé ljóst að hluti barna geti komið til með að eiga í töluverðum erfiðleikum með lestur. „Við erum að sjá 12% barna sem að við áætlum að séu í áhættuhópi eitt og það eru þau börn sem eru í mestum vanda en með öflugu inngripi þá getum við náð gríðarlega góðum árangri,“ segir Steinunn.

Hún segir það geta skipt sköpum fyrir börnin að fá aðstoð snemma. „ Því fyrr sem við getum gripið inn í með viðeigandi íhlutun með þeim börnum, og fyrir þau börn sem á þurfa að halda, því meiri möguleika höfum við til að ná bæði þessari lestækni sem við þurfum að byggja upp til þess að ná lesfiminni og líka þeim málskilningi sem að börn þurfa að hafa til þess að geta haft möguleika á að ná góðum lesskilningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×