Innlent

Gatnamótum Lækjargötu og Geirsgötu breytt

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Vegna framkvæmda hafa breytingar verið gerðar á umferð um Geirsgötu í Reykjavík sem tóku gildi klukkan 11 í morgun. Búist er við því að framkvæmdir verði á svæðinu langt inn á næsta ár.

Breytingarnar koma til með að hafa töluverð áhrif á svæðinu en lokað hefur verið fyrir umferð austur og vestur gömlu Geirsgötuna. Hjáleiðin færð norður fyrir og akreinar þrengdar með eina akstursstefnu í hvora átt.

Unnið er að því að byggja bílakjallara undir Geirsgötu og nýjum byggingum á Austurbakka sem kemur til með að rúma mörg hundruð bíla.  Búist er við því að nýja hjáleiðin komi til með að vera í notkun fram á næsta  sumar.

„Þetta breytist töluvert. Það er verið að fækka akreinum í vestur átt og eins áfram bara ein akrein í austur átt. Þannig að þetta hefur áhrif,“ segir Þór Gunnarsson, verkefnisstjóri á framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar.

Nú er mikil umferð um þessu gangamót á hverjum degi. Mikið um hópferðabifreiðar. Hafið þið ekki áhyggjur af ástandi sem getur skapast á háanna tímum?

„Nei við höldum að þetta verði í lagi. Auðvitað er þetta breyting,“ segir Þór.

Með því að þrengja götuna má búast við því að umferð komi til með að ganga hægar um gatnamótin á háanna tíma.

„Það er aðallega bara að gefa sér tíma. Gatan í raun og veru afkastar þessu en dálítið hægar kannski. Bara gefa sér tíma í að komast leiðar sinnar,“ segir Þór.

Gangandi vegfarendum er beint um gönguleiðir neðan við Arnarhól með fram Kalkofnsvegi sem og um gönguljós yfir Geirsgötu vestan við Kolaportið.

Hámarkshraði umferðar verður lækkaður í 30 km á klst. og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát við framkvæmdasvæðið.Á næsta ári vera svo gerðar breytingar á gatnamótum Geirsgötu og Lækjargötu samkvæmt nýju skipulagi og verða þær framkvæmdir kynntar sérstaklega þegar nær dregur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×