Innlent

Ætlaði að ganga til Hafnar í Hornafirði en fékk aðstoð lögreglu í Höfnum á Reykjanesi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Spölurinn hefði orðið töluverður fyrir manninn.
Spölurinn hefði orðið töluverður fyrir manninn.
Lögreglan á Suðurnesjum aðstoðaði í nótt kaldan og hrakinn karlmann sem hafði misst af flugi sínu til Póllands. Maðurinn, sem er útlenskur en búsettur á Íslandi, hugðist þá ganga heim til sín; til Hafnar í Hornafirði.

Maðurinn sló inn staðsetninguna í Google Maps forritið. Samkvæmt forritinu átti maðurinn að ganga að Höfnum og að Reykjanesi og svo með suðurströndinni, og átti ferðalagið aðeins að taka fjóra daga.

Ferðalagið fór þó ekki betur en svo að maðurinn óskaði eftir lögreglu þegar hann var kominn um 10-15 kílómetra fram hjá Höfnum og var þá næsti viðkomustaður samkvæmt Google Maps Grindavík.  

Maðurinn fékk nokkra heita kakóbolla hjá lögreglu og gisti þar í nótt. Honum verður svo komið í rútu austur á morgun.

„Við hér á stöðinni erum á því að „ég held ég gangi heim" hafi bara fengið alvöru meiningu í kvöld.

Eigið góða helgi og farið varlega,” segir lögregla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×