Innlent

Skólahald í sóknarheimili

Þorgeir Helgason skrifar
Börnin munu sækja skólahald í safnarheimili Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði.
Börnin munu sækja skólahald í safnarheimili Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði. vísir/vilhelm
„Það er löngu orðið tímabært að létta á fjölda nemenda í Hraunvallaskóla en hann er orðinn einn fjölmennasti skóli landsins,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar.

Ráðist hefur verið í uppbyggingu á nýjum skóla í Vallahverfinu í Hafnarfirði. Skólinn verður í Skarðshlíð en þar rís nýjasta byggð Hafnarfjarðarbæjar.

„Meðan skólahúsnæðið er ekki tilbúið er ljóst að notast þarf við bráðabirgðahúsnæði og úr varð að bærinn mun leigja safnaðarheimili Ástjarnarkirkju. Fyrsta ár skólahaldsins mun fara þar fram en flytjast svo í nýtt skólahús haustið 2018,“ segir Rósa.

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður fræðsluráðs í Hafnarfirði. Fréttablaðið/Stefán
Safnaðarheimilið verður leigt af Hafnarfjarðarbæ á skólatíma en mun sinna sókn Ástjarnarkirkju um kvöld og um helgar.

„Fyrsta árið verður skólahald fyrir fyrsta til fjórða bekk í safnaðarheimilinu en áætlað er að skólinn muni sinna fyrsta til tíunda bekk á næstu árum. Undirbúningur er í fullum gangi og við munum bráðlega auglýsa eftir skólastjóra,“ segir Rósa.

Hraunvallaskóli er tiltölulega ungur skóli en hann tók til starfa árið 2005 og rúmlega 900 nemendur sækja hann. Skólinn er svokallaður opinn skóli sem felur í sér að ekki er mikil áhersla lögð á formlegt kennslufyrirkomulag. Nemendur hafa meira frelsi til að haga náminu eftir sínu höfði og ekki er notast við hefðbundnar kennslustofur.

„Kennslufyrirkomulagið í Hraunvallaskóla hentar ekki öllum nemendum og geta því þeir nemendur sem vilja formlegra kennslufyrirkomulag sótt nám í skólanum í Skarðshlíð. Ákveðið hefur einnig verið að leggja mikla áherslu á tónlistarkennslu í skólanum,“ segir Rósa.

Lars Jóhann Imsland Hilmarsson, skólastjóri Hraunvallaskóla, segist ánægður með að nýi skólinn hefji störf næsta haust. „Það er mikil þörf á því að létta á nemendafjölda Hraunvallaskóla.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×