Innlent

Engar forsendur til þess að rukka fyrir notkun rafrænna skilríkja

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Neytendasamtökin telja að óverulegur kostnaður falli til hjá fjarskiptafyrirtækjum vegna notkunar neytenda á rafrænum skilríkjum.
Neytendasamtökin telja að óverulegur kostnaður falli til hjá fjarskiptafyrirtækjum vegna notkunar neytenda á rafrænum skilríkjum. vísir/getty
Neytendasamtökin telja að óverulegur kostnaður falli til hjá fjarskiptafyrirtækjum vegna notkunar neytenda á rafrænum skilríkjum og að engar efnahagslegar forsendur séu til þess að láta neytendur greiða fyrir þá notkun. Samtökin hafa síðustu daga átt í viðræðum við bankastofnanir, fjarskiptafyrirtæki og fyrirtækið Auðkenni vegna gjaldtöku á rafrænum skilríkjum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendasamtökunum. Þar segir að notkun rafrænna skilríkja leiði til verulegs hagræðis hjá fjármálastofnunum, opinberum aðilum og fleiri fyrirtækjum, svo nemi gríðarlegum fjárhæðum, og að ekki komi til greina að rukka neytendur fyrir notkun þeirra.

„Einhver kostnaður mun hafa fallið á fjarskiptafyrirtæki vegna útskiptingar SIM korta í tengslum við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili en óvarlegt er að telja allan þann kostnað til rafrænna skilríkja þar sem hvort eð er hefði þurft að skipta út SIM kortum á lengri tíma,“ segir í tilkynningunni.

Þá hafi Síminn tilkynnt að ekki standi til að hefja gjaldtöku vegna notkunar á rafrænum skilríkjum og að Vodafone hafi frestað gjaldtöku, sem fyrirhugað var að hefja um næstu mánaðamót.

„Neytendasamtökin fagna þeirri ákvörðun og telja eðlilegt að fyrirtækið falli með öllu frá fyrirhugaðri gjaldtöku. Eftir stendur að Nova hefur um skeið innheimt gjald af viðskiptavinum sínum vegna notkunar rafrænna skilríkja og hyggst gera það áfram. Neytendasamtökin telja, sem áður segir, engar efnislegar forsendur vera fyrir þeirri gjaldtöku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×