Innlent

Nauðgun dóttur versta martröð foreldra

Snærós Sindradóttir skrifar
Þolendur kynferðisofbeldis upplifa mikla skömm sem stundum magnast upp vegna vondra viðbragða foreldra í miklu áfalli. Verkefnastjóri Neyðarmóttökunnar segir að stundum þurfi starfsfólk að vera milliliður á milli barna og foreldra.
Þolendur kynferðisofbeldis upplifa mikla skömm sem stundum magnast upp vegna vondra viðbragða foreldra í miklu áfalli. Verkefnastjóri Neyðarmóttökunnar segir að stundum þurfi starfsfólk að vera milliliður á milli barna og foreldra. Nordicphotos/Getty
Þegar stúlkur ná fermingaraldri stóraukast líkur á að þær verði fyrir nauðgun. Þetta sýna tölur Neyðarmóttökunnar en stórt stökk verður í komum einstaklinga frá fjórtán ára aldri. Komunum heldur svo áfram að fjölga í gegnum unglingsárin og fram á fullorðinsár. Hér á eftir verður oftast rætt um unglingsstúlkur. Að meðaltali leita fjórir karlar á ári til Neyðarmóttökunnar.

Sé rýnt í tölur um Neyðarmóttökuna frá stofnun hennar árið 1993, sést hvernig komur unglingsstúlkna fara stigvaxandi með aldrinum. Þrettán tólf ára stúlkur hafa leitað til Neyðarmóttökunnar, 49 þrettán ára stúlkur hafa leitað á móttökuna en strax við fjórtán ára aldurinn eru þær orðnar 102. Þá hafa152 fimmtán ára stúlkur leitað til móttökunnar og 209 sextán ára stúlkur. Alls hafa 707 einstaklingar undir lögaldri leitað á móttökuna frá stofnun.

Vert er að taka fram að aldurshópurinn 18 til 25 ára er þrátt fyrir þetta fyrirferðarmesti aldurshópurinn en 1.075 manns í þeim aldurshópi hafa leitað til móttökunnar frá 1993. Eftir það taka komurnar mikla dýfu. 801 einstaklingur 26 ára og eldri hefur leitað til móttökunnar frá upphafi. Þeir elstu eru eldri en 55 ára.

Eyrún Jónsdóttir fráfarandi verkefnastjóri Neyðarmóttökunnar. vísir/Anton Brink
Eyrún Jónsdóttir hefur verið verkefnastjóri Neyðarmóttökunnar frá stofnun hennar en hefur nú ákveðið að hætta og snúa sér að öðru. Í dag heldur Landspítalinn málþing henni til heiðurs þar sem meðal annars verður rætt um mikilvægi Neyðarmóttökunnar fyrir brotaþola.

Eyrún segir að sérstaklega verði að huga að yngsta hópnum sem leiti til móttökunnar. Aðstæður þar séu töluvert ólíkar því sem gengur og gerist með fullorðnar konu sem leita þangað eftir nauðgun. „Í sjálfu sér eru unglingsstúlkurnar ekki á skemmtistöðunum eða í skemmtanalífinu en um fermingaraldur eru þær farnar að fikra sig áfram í samskiptum við hitt kynið, farnar að fara í fyrsta skipti á djammið og drekka í fyrsta sinn. Það er algengast í þeirra málum að gerendur séu eldri, jafnvel þremur til fjórum árum eldri. En svo kemur líka fyrir að gerandi og þolandi séu jafnaldrar. Stelpur á þessum aldri eru oft þroskaðri og síður að líta til [jafnaldra stráka], þær taka sénsa, fara í partí þar sem er blandaður hópur en aldur þeirra og þroskaleysi kemur í veg fyrir að þær lesi í aðstæðurnar,“ segir Eyrún.

„Það er algengt í málum þessara stelpna og stráka að þær segi ekki alveg strax frá. Þær segja trúnaðarvinkonu sinni sem svo segir mömmu sinni sem að lokum segir móður brotaþola frá. Oft eru þær því að koma á Neyðarmóttöku nokkrum dögum eftir að brotið hefur verið framið,“ segir Eyrún.

Tölfræði um þá sem leita til Neyðarmóttökunnar
Áfall fyrir foreldra

Fyrstu viðbrögð foreldra skipta miklu máli fyrir þolendur. „Það er auðvitað versta martröð foreldra að upplifa að dóttir þeirra hafi orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri árás. Fyrstu viðbrögð foreldra eru þá oft að fara að ofvernda og halda utan um barnið eins vel og hægt er. Þá upplifa krakkar stundum að þau hefðu jafnvel ekki átt að segja frá. Þegar við hringjum í foreldrana verða fyrstu viðbrögð oft reiði og skammir, um að þetta hefði ekki gerst ef börnin hefði ekki gert eitthvað ákveðið. En þessir einstaklingar eru fullir af þeim hugsunum sjálfir,“ segir Eyrún.

Eyrún segir allt ferlið sérstaklega átakanlegt fyrir unglingsstúlkur á Neyðarmóttökunni. Í mörgum tilfellum var ofbeldið sem þær urðu fyrir þeirra fyrsta kynferðislega reynsla og þegar komið er á Neyðarmóttökuna þurfa þær að fara í sína fyrstu kvenskoðun. „Fyrir hverja einustu konu er það að fara í gegnum sína fyrstu kvenskoðun ákveðið ferli sem þarf að manna sig upp í. Í þessum tilfellum þarf svo að gæta að því að þetta er kvenskoðun gerð undir þessum aðstæðum. Það þarf að vera mjög nærgætinn og upplýsa og fræða jafnharðan og gefa allan tíma sem þarf til að útskýra hvers vegna við verðum að gera þetta. Þessi mál taka oft langan tíma vegna þess að við erum að reyna að sýna fyllstu alúð svo koman verði ekki trámatísk upplifun sem sitji í þeim áfram.“

Eyrún segir jafnframt að þroskaleysið skíni í gegn þegar kemur að orðfæri og frásögn af ofbeldinu. Hópurinn sé mun meira hikandi en eldri konur. „Með tilkomu netsins og klámsins er ofbeldið í eðli sínu alltaf að verða grófara og gerandinn er uppfullur af annarlegum hugmyndum sem hann útfærir á einstaklingnum. Það kannski skín í gegn þessi undirgefni, að vera ekki búinn að móta sjálfur skoðanir og að það megi segja nei. Það þurfi ekki að ganga inn í eitthvað þó þú sért beittur miklum þrýstingi. Það er þetta mótstöðuleysi sem hefur alltaf fylgt hópnum en markaleysið er svo að verða enn meira.“

Vill ná til gerenda

Þrátt fyrir að Eyrún sé að hætta eftir farsælan tíma í starfi á Neyðarmóttökunni er hún ekki hætt að brenna fyrir málaflokknum. Hún segir einar stærstu brotalamirnar snúa að skorti á fræðslu. „Það þarf að snúa sér að gerendum og gera öllum grein fyrir hversu alvarlegt þetta er. Þetta hefur ekkert með kynlíf að gera heldur er þetta gróft ofbeldi. Upplýsing og fræðsla er það sem stendur upp úr til að reyna að koma í veg fyrir brotin. Svo þarf að auka úrræði fyrir þá sem þurfa aðstoð. Það eru öll kerfi drukknuð í dag.“

Hún nefnir líka að finna þurfi milliveginn á milli þess að fjölmiðlar tali opinskátt um kynferðisofbeldi og án þöggunar en sleppi grafískum lýsingum. „Þegar brotaþolar koma hingað er þeim lofað nafnleynd og trúnaði en vinna okkar gengur líka út á að útskýra að ef þeir kæra þá sé líklegt að einhver klausa verði um málið í blaðinu. Nærfærin umfjöllun er fyrsta krafan því þetta hefur áhrif til langframa.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×