Innlent

Innanríkisráðuneytið skoðar hvort bæta þurfi verklag þegar börn eiga í hlut

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Innanríkisráðuneytið hefur hafið skoðun á því hvort þörf sé á að bæta verklag þegar börn eiga í hlut.
Innanríkisráðuneytið hefur hafið skoðun á því hvort þörf sé á að bæta verklag þegar börn eiga í hlut. vísir/
Innanríkisráðuneytið hefur hafið skoðun á því hvort þörf sé á að bæta verklag þegar börn eiga í hlut. Það er gert til að tryggja að hagsmunir barna séu alltaf hafðir í fyrirrúmi og að alþjóðlegar skuldbindingar séu uppfylltar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér nú síðdegis, vegna fréttaflutnings um mál fjölskyldu frá Tógó, sem vísa átti úr landi í fyrrinótt. Um er að ræða fjögurra manna fjölskyldu; hjón með tvö börn. Börnin fæddust hér á landi en eru ekki með íslenskan ríkisborgararétt.

Í tilkynningunni segir að til skoðunar komi hvort veita skuli allri fjölskyldunni heimild til dvalar á grundvelli fjölskyldusameiningar með vísan til Mannréttindasáttmála Evrópu. Hvert atvik verði að skoða í hverju máli fyrir sig, og sé það í höndum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála.

„Sú staða kann að koma upp að hagsmunir eins fjölskyldumeðlims, t.d. barns, séu slíkir af því að fá að dveljast áfram í móttökuríki að brottvísun eða frávísun teljist ekki heimil, t.d. ef hætta er á því að þessi tiltekni einstaklingur muni verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í því ríki sem á að senda hann til eða muni þar búa við aðstæður sem eru taldar fela í sér slíka meðferð,“ segir í tilkynningunni.

„Við matið ber meðal annars að skoða hvort flutningur úr landi feli í sér að fjölskylda aðskiljist, hvort óyfirstíganlegar hindranir standi því í vegi að fjölskylda geti lifað fjölskyldulífi annars staðar (t.d. í upprunaríki), hversu sterk tengsl fjölskyldu eru annars vegar við móttökuríkið og hins vegar við upprunaríkið og hversu erfitt yrði fyrir fjölskyldu að setjast að annars staðar. Þá er mikilvægt að skoða hagsmuni barna m.t.t. aldurs, velferðar og mögulegra erfiðleika sem þau, foreldrar eða aðrir fjölskyldumeðlimir geta orðið fyrir ef til flutnings úr landi kemur,“ segir jafnframt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×