Innlent

Dögum saman á bráðamóttöku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Yfirlæknir á bráðamóttökunni í Fossvogi segir ástandið hafa versnað í vikunni því erfiðlega gangi að koma fólki af bráðamóttöku yfir á aðrar deildir.
Yfirlæknir á bráðamóttökunni í Fossvogi segir ástandið hafa versnað í vikunni því erfiðlega gangi að koma fólki af bráðamóttöku yfir á aðrar deildir. vísir/Anton Brink
„Ég hef séð það verra en ég hef líka séð það betra,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.

Mikið álag er á Landspítala þessa dagana og sendu stjórnendur spítalans, að höfðu samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, út tilkynningu í gær til að minna fólk á móttökur heilsugæslunnar sem og Læknavaktina.

Jón Magnús segir að undanfarna daga hafi ástandið versnað smám saman og fleiri og fleiri sjúklingar ekki komist til innlagnar af bráðadeildinni á þær deildir sem þeir þyrftu. Þetta hefur gert það að verkum að sjúklingar hafa dvalið á bráðamóttökunni tímunum saman. Sumir hafa verið þar yfir sjötíu klukkutíma, eða hátt í fjóra sólarhringa.

Á sama tíma hefur verið mikil aðsókn á bráðamóttökuna sem hefur gert það að verkum að þar eru mikil þrengsli. Jón Magnús segir þetta sérstaklega vont fyrir sjúklingana.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.vísir/anton
„Starfsemi bráðamóttökunnar er þannig að það er ónæði allan sólarhringinn. Þú nærð illa að hvílast ef þú ert á bráðamóttöku. Það eru mörg rúm sem eru í gluggalausum herbergjum þannig að fólk fær ekki að njóta dagsbirtu,“ segir Jón Magnús.

Yfirlæknirinn bætir við að starfsfólk deildarinnar sé sérhæft til bráðamóttökuvinnu og gríðarlega fært í því. „En það hefur kannski ekki sérhæfinguna til þess að sinna innlögðum sjúklingum. Þannig að í heildina er þetta neikvætt fyrir sjúklingana,“ segir hann.

Jón Magnús segir að í gærmorgun hafi bráðavaktin verið með 24 sjúklinga á bráðamóttökunni sem biðu eftir innlögn.

„Það þýðir það að við erum bara með átta rúm laus til þess að sinna fólki sem kemur með bráð vandamál. Við getum ekki veitt þá þjónustu sem við viljum á bráðamóttökunni sem aftur fólk finnur fyrir með auknum biðtíma,“ segir Jón Magnús.

Jón Magnús segir að spítalinn vilji að allir geti farið í forflokkun og einkenni þeirra séu skoðuð. Fólk með alvarlegan og bráðan vanda fái strax aðstoð. „Þeir sem eru með minni bráðan vanda geta lent í langri bið og í sumum tilfellum gætu þeir fengið fljótari og jafn góða þjónustu á heilsugæslunni og á læknavaktinni,“ segir Jón Magnús. Vandinn sé sá að það geti verið erfitt að vita hvort einkennin sem fók fær séu mjög bráð eða ekki. „Þannig að við höfum ekki viljað beina fólki frá því að leita til okkar í þetta fyrsta mat, þessa forgangsröðun. En sumir sem koma til okkar og reynast ekki vera með mjög bráð veikindi gætu fengið þær ráðleggingar frá okkur að leita frekar á heilsugæslu eftir það mat,“ segir Jón Magnús. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×