Innlent

Lesturinn vefst fyrir þriðjungi skólabarna

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri á matssviði Menntamálastofnunar
Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri á matssviði Menntamálastofnunar
Um 36 prósent íslenskra grunnskólabarna ná ekki lágmarksviðmiðum í lesfimi, segja niðurstöður Menntamálastofnunar.

Lögð voru lesfimipróf fyrir 5.500 íslensk börn frá fyrsta og upp í tíunda bekk. Lesfimi er mæld sem rétt lesin orð á mínútu. Niðurstöður Menntamálastofnunar sýna líka að óverulegar framfarir í lesfimi eru frá miðstigi til unglingastigs og lesfimi við lok grunnskóla er ábótavant.

Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri á matssviði Menntamálastofnunar, segir þetta áhyggjuefni. „Við fórum í heljarinnar vinnu og öfluðum upplýsinga frá framhaldsskólum, háskólum og þeim skólum sem hafa náð árangri í læsismálum um hvað séu eðlilegar væntingar um lesfimi. Síðan settum við almenn viðmið um færni nemenda. Þannig setjum við markmið fyrir nemendur í hverjum árgangi, svo þeir séu undirbúnir fyrir kröfur á næstu stigum náms,“ segir Gylfi Jón.

Lesfimiviðmiðin eru þrjú. Lágmarksviðmið sem stefnt er að að 90 prósent nemenda nái, almennt viðmið sem stefnt er að að 50 prósent nemenda nái og metnaðarfullt viðmið sem stefnt er að að 25 prósent nemenda nái.

Niðurstöðurnar sýna hins vegar að einungis 64 prósent nemenda ná lágmarksviðmiði við útskrift, 29 prósent nemenda ná almennu viðmiði og aðeins átta prósent nemenda ná metnaðarfullu viðmiði.

„Til að setja þessar tölur í samhengi, þá er meðalleshraði nemenda um 270 atkvæði á mínútu við útskrift úr tíunda bekk,“ útskýrir Gylfi Jón.

„Upplýsingar frá framhaldsskólunum segja hins vegar, að ef þú ætlar þér að útskrifast úr bóknámi þurfir þú að lesa að lágmarki 300 atkvæði á mínútu. Þannig að meðalleshraði hjá nemendum við útskrift úr tíunda bekk nær ekki þeim lágmarksviðmiðum sem framhaldsskólinn telur að þurfi.“

Aðspurður segir Gylfi Jón viðmiðin ekki of há.

„Þessi markmið eru alls ekki óraunhæf. Við rökstyðjum það með því að í þeim sveitarfélögum þar sem voru sett tíma- og tölumarkmið í lestri, urðu gríðarlegar framfarir. Þetta er alveg hægt. En það er verk að vinna.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×