Innlent

Öðruvísi tekið á móti drengjum en stúlkum sem greina frá kynferðislegu ofbeldi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og doktorsnemi við Háskóla Íslands, segir rannsóknir sýna að það sé miklu meira um að konur beiti ofbeldi en almennt er talið. Hún segir að komið sé nóg af því að lítið sé gert úr upplifun drengja og karla á ofbeldi.

Sigrún og Ingólfur Harðarson, frumkvöðlafræðingur og þolandi kynferðislegs ofbeldis í æsku, ræða kvenmiðaða umræðu um kynferðisofbeldi, hvernig öðruvísi sé tekið á móti drengjum en stúlkum sem stíga fram sem þolendur og hvað sé hægt að gera til að uppræta þetta samfélagsmein.

Umræðan um kynferðisofbeldi hafi verið leidd af kvennahreyfingum í gegnum tíðina, sem útskýri kannski að einhverju leyti af hverju við erum svo langt á eftir þegar kemur að umræðu um kynferðisofbeldi gegn drengjum.

Þau, ásamt nemendum á heilbrigðisvisindasviði Háskólans á Akureyri, standa fyrir átaksverkefninu Blái Strengurinn, verkefni sem á uppruna sinn í Bandaríkjunum og miðar að því að vekja athygli á því að einn af hverjum sex drengjum verður fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Einn blár strengur af sex strengjum í gítarnum vísar því í einn af hverjum sex drengjum.

Fjölmargir íslenskir tónlistarmenn hafa nú þegar lagt verkefninu lið með því að setja einn bláan streng í gítar sinn en þeir munu einnig taka virkan þátt í dagskrá ráðstefnu um efnið sem haldin verður þann 20. maí næstkomandi í Háskólanum á Akureyri með tónlistaratriðum.

Viðtalið við Sigrúnu og Ingólf má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×