Innlent

Kaupa frekar föt í útlöndum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Margt bendir til þess að fatakaup Íslendinga í útlöndum hafi aukist á undanförnum mánuðum þrátt fyrir niðurfellingu tolla á fatnaði og skóm. Formaður Samtaka verslunar og þjónustu segir þetta áhyggjuefni en hagfræðingur Alþýðusambandsins segir að kaupmenn séu ekki að skila styrkingu krónunnar til neytenda.

Fataverslun hér á landi dróst saman um rúm sjö prósent í síðasta mánuði miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar. Tollar á fatnaði og skóm voru afnumdir í byrjun þessa árs og þá hefur krónan styrkst verulega á þessu tímabili.

Verð á fatnaði hefur lækkað um tæp 6 prósent vegna þessa en Henný Hinz hjá hagfræðideild ASÍ segir að breytingarnar kalli á mun meiri lækkun.

„Miðað við okkar útreikninga og þær upplýsingar sem við gátum best fengið þá átti vörugjaldalækkunin ein og sér að skila sér í svona 7 til 8 prósenta verðlækkun og svo skyldi maður ætla að gengisstyrkingin kæmi þar til viðbótar. Miðað við þetta þá hefur þetta ekki skilað sér sem skyldi,“ segir Henný Hinz.

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að miklar launahækkanir á síðustu misserum skýri þetta að sumi leyti.

„Launavísitalan hefur hækkað um 10 til 11 prósent það sem af er ári og eins og allir vita er launakostnaður mjög afgerandi þáttur í öllum rekstri. Ekki síst í rekstri verslana,“ segir Andrés.

Í samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar er bent á að markmiðið með tollabreytingum á fatnaði hafi verið að styrkja innlenda fataverslun. Mikil aukning á greiðslukortaveltu Íslendinga erlendis bendi hins vegar til þess að landsmenn kjósi í vaxandi mæli að kaupa frekar föt í útlöndum.

„Þetta er áhyggjuefni þegar við skoðum þessar tölur. Eiginlega allar tölur eru mjög jákvæðar fyrir verslunina nema hvað fatnaðinn varðar. Það er virkilegt áhyggjuefni,“ segir Andrés




Fleiri fréttir

Sjá meira


×