Innlent

Slagsmál vegna reykinga í strætóskýli við Suðurlandsbraut

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Varasamt að reykja í strætóskýli, segir lögregla.
Varasamt að reykja í strætóskýli, segir lögregla. vísir/ernir
Til slagsmála kom í strætóskýli við Suðurlandsbraut klukkan rúmlega eitt í dag á milli reykingamanns og annars manns, vegna reykinga þess fyrrnefnda. Sá síðarnefndi hafði bent reykingamanninum á að bannað væri að reykja inni í strætóskýlum þannig að reykingamaðurinn hélt iðju sinni áfram fyrir utan skýlið.

Sá reyklausi tók það hins vegar ekki í sátt og hóf að taka ljósmyndir af viðkomandi. Við það reiddist reykingamaðurinn með þeim afleiðingum að til handalögmála kom, og þurfti annar þeirra að leita á slysadeild til aðhlynningar, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. Þó er ekki tekið fram hvor þeirra hafi þurft að leita sér læknisaðstoðar, né hvort mennirnir hafi verið handteknir. „Varasamt að reykja í strætóskýli,” segir hins vegar í tilkynningunni.

Þá kemur fram í tilkynningunni að karlmaður hefði verið handtekinn í austurbænum klukkan half eitt í dag eftir að tilkynnt var um húsbrot og ágreining.

„Þar var fyrrverandi sambýlisfólk af erlendum uppruna að rífast það heitt að konan rak karlinn á dyr. Karlinn brást hinn versti við og lögreglan kölluð til,” segir í skeyti lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×