Innlent

Lék lausum hala í sjö ár: Sveik á annað hundrað raftækja út úr Alcoa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin er samsett
Myndin er samsett Vísir
Maður sem starfaði sem sérfræðingur hjá Alcoa-Fjarðaráli hefur verið dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem hann þarf þarf að greiða fyrirtækinu rétt tæpar tíu milljónir vegna fjársvika frá 2008 til 2015.

Var hann starfsmaður á upplýsinga- og tæknisviði hjá Alcoa- Fjarðaáli. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa blekkt starfsmenn Alcoa- Fjarðaáls með því að hagnýta sér rangar eða óljósar hugmyndir þeirra um tilgang vörukaupa en á árunum sem um ræðir lét hann Alcoa greiða fyrir fjölmörg raftæki sem hann svo nýtti í eigin þágu.

Meðal þeirra raftækja sem hann pantaði í eigin þágu fyrir reikning Alcoa voru fjórir iPhone símar, sjö iPad spjaldtölvur, tvær Macbook Pro fartölvur, Canon-myndavélar, linsur, hljóðnemar og heyrnartól. Ódýrasta varan sem maðurinn var ákærður fyrir að hafa svikið út úr Alcoa var svokallað Smartfix fyrir síma sem kostaði 950 krónur, það dýrasta var Mac Pro tölva að verðmæti 378 átta þúsund króna.

Pantaði hann vörurnar frá þremur fyrirtækjum, Fjarskiptum hf, Nýherja og Hátækni en alls var um 150 vörur að ræða en fallið var frá ákæru vegna fimm raftækja.

Alls nam heildarupphæð þeirra raftækja sem maðurinn keypti fyrir reikning Alcoa-Fjarðaráls í eigin þágu 9.697.391 króna. Maðurinn játaði brot sitt og var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi en horft var til játningar mannsins auk þess sem að hann var með hreint sakarvottorð.

Þá þarf hann að greiða Alcoa-Fjarðaráli skaðabætur sem nema heildarupphæð þeirra raftækja sem hann keypti auk málskostnaðar, fimm hundruð þúsund krónur.

Sjá má dóm héraðsdóms hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×