Innlent

HAM-arar dauðfegnir því að Óttarr sé laus af króknum

Jakob Bjarnar skrifar
Hljómsveitin HAM var undir verulegu álagi meðað forsöngvarinn Óttarr stóð í viðræðum við Sjálfstæðismenn.
Hljómsveitin HAM var undir verulegu álagi meðað forsöngvarinn Óttarr stóð í viðræðum við Sjálfstæðismenn.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í samtali við Vísi, meðan hann var í stjórnarmyndarviðræðum við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, um fúkyrðaflauminn sem hann mátti þá þola og svikabrigsl, að eftir að „hafa verið listamaður á Íslandi kallar maður ekki allt ömmu sína í þeim efnum.“

En, engu að síður virðist þessi staða hafa verið mikið álag á meðlimi þungarokkshljómsveitarinnar HAM, hvar Óttarr er forsöngvari, ef marka má pistil sem gítarleikarinn Flosi Þorgeirsson, birti í gær á sinni Facebook-síðu.

„Jæja, snarbrjálað fólk hættir þá kannski að pósta Sviksemi með HAM. Ég þurfti að minna suma á það að óþarfi væri að draga hljómsveitina inn í þetta. Óttarr er ekki einn í bandinu og ekki eru allir í Bjartri framtíð,“ segir Flosi. Ætti fólk ekki að vanmeta viðkvæmt tilfinningalíf rokkara þó leðurklæddir séu og leiki krassandi rokk, eins og sjá má hér neðar.

Meðan á þeim stjórnarmyndunarviðræðum stóð mátti Óttarr þola köpuryrði einkum þeirra sem er í nöp við Sjálfstæðisflokkinn. Og fóru sumir offari. Hins vegar breyttist vindáttin snarlega þegar Bjarni sleit viðræðunum.

Hellt úr skolpfötum yfir Óttarr

Kappið sem hlaupið hefur í umræðuna á samfélagsmiðlum er athyglisvert félagsfræðilegt fyrirbæri og vilja nú ýmsir setja ofan í við þá sem fóru offari. Ágætt dæmi um einn slíkan er Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður, á sinni Facebooksíðu. Össur er einn reynslumesti stjórnmálamaður landsins, hefur sem slíkur marga fjöruna sopið en ljóst má vera að honum þykir nóg um:

„Mér sýnist Óttarr Proppé hafa staðið vel á sínum prinsippum. Kanski ættu þeir sem hafa hellt yfir hann úr skólpfötum sínum að mæla til hans af minni styggð á næstu dögum...“

Spilling, undirferli og lygar kalla fram reiði

Flosi segir sjálfsagt hjá Óttari að kanna málið og athuga hvort Sjálfstæðismenn séu mögulega „komnir það langt á þróunarbrautinni að hægt væri að víkja af venjubundinni braut einkahagsmuna og nepótisma.“

Flosi segir að sú hafi ekki reynst raunin, að sjálfsögðu:

„Einnig skil ég vel að það hafi farið um marga er þessar umræður hófust þó sumum hafi hlaupið full mikið kapp í kinn. Viðbrögð þeirra voru vel skiljanleg þótt full mikill hiti hafi hlaupið í suma. Eðlilegt er að spilling, undirferli, lygar og hroki stjórnmálamanna kalli fram mikla reiði í samfélaginu.


Tengdar fréttir

Sótt að Óttarri úr öllum áttum

Stjórnmálamenn og áhrifafólk á vinstri væng stjórnmálanna virðist ekki vera yfir sig hrifið af ákvörðun Bjartrar framtíðar um að taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×