Innlent

Ný Vínbúð í Garðabæ

Birgir Olgeirsson skrifar
ÁTVR leitar að hentugu húsnæði undir Vínbúð í Garðabæ.
ÁTVR leitar að hentugu húsnæði undir Vínbúð í Garðabæ. Vísir/GVA
Áfengis og tóbaksverslun ríkisins leitar nú að leiguhúsnæði í Garðabæ undir nýja vínbúð sem mun væntanlega opna á næsta ári. Garðbæingar hafa verið án vínbúðar í 6 ár, eða frá áramótum 2010, og því munu væntanlega einhverjir gleðjast yfir þessari ákvörðun.

ÁTVR var með vínbúð á Garðatorgi í Garðabæ í tæpan áratug en Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir það svæði hafa hentað illa.

„Við vorum í mjög þröngu húsnæði þarna inn á Garðatorginu, sem var ekki prímastaður. Leigusamningurinn var að renna út á þessum tíma og við vorum þá nýbúin að fara í gengum mikinn samdrátt í samfélaginu. Það voru kannski stærstu þættirnir,“ segir Sigrún Ósk í samtali við Vísi.

Í tilkynningu á vef ÁTVR um lokunina árið 2010 kom fram að mikið af verslun hefði flust af svæðinu og að salan í vínbúðinni í Garðabæ hefði dregist hægt og rólega aftur úr almennri þróun, bæði á landsvísu og höfuðborgarsvæðinu.

Á vef Ríkiskaupa má finna útboðslýsingu á leiguhúsnæði fyrir vínbúð í Garðabæ. Þarf húsnæðið að vera um 350 til 400 fermetrar að stærð en það mun skiptast að 2/3 hlutum í verslunarsvæði og 1/3 hluta í lager og starfsmannaaðstöðu.

Húsnæðið þarf að vera á skilgreindu verslunarsvæði, nærri stofnbraut eða tengibraut, liggja vel við almenningssamgöngum, umferð að og frá húsnæði sé greið, húsnæðið sé á jarðhæð og bjóði upp á að vöruhurð opnist beint út á bak- eða hliðarsvæði.

Krafist er að minnsta kosti 25 til 35 bílastæða sem verða ætluð Vínbúðinni eða sérmerkt henni. Er lögð áhersla á gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða og jafnframt þurfa að vera bílastæði fyrir starfsfólk. Flutningabílar og lyftarar með vörur þurfa að eiga greiðan aðgang að húsnæðinu og þarf verslunarrýmið að vera sem næst rétthyrnt og mega súlur, veggir eða annað ekki hamla yfirsýn um verslunarhluta húsnæðisins.

Þá þarf hljóðdempun í verslun að tryggja góða hljóðvist og lýsing skal vera 500 til 600 lux. Fresturinn til að skila inn tilboði rennur út föstudaginn 25. nóvember næstkomandi, klukkan 11.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×