Innlent

"Ég get ekki meir, ég hreinlega þoli ekki meir“

Samúel Karl Ólason skrifar
„Stundum hugsa ég með mér: Ég get ekki horft á þetta. Ég get ekki meir, ég hreinlega þoli ekki meir.“ Þetta segir Sigríður Thorlacius í nýjasta ákalli UNICEF vegna hrikalegs ástands í Nígeríu og nágrannaríkjum.

Þar er hún að tala um að hún geti stundum ekki horft á myndir og myndbönd af þjáningum barna og stundum langi hana að slökkva á tölvunni.

Hins vegar viti hún að þó hún slökkvi á tölvunni hverfa hörmungar barnanna og neyðin ekki.

Nærri því hálf milljón barna í fjórum ríkjum Afríku eru í lífshættu vegna vannæringar. Verði ekkert gert er talið að nærri því 75 þúsund börn muni deyja í norðurhluta Nígeríu, eða rúmlega 150 á dag.

Hægt er að styrkja neyðarsöfnunina með því að senda sms-ið BARN í nr 1900 (1.000 kr).

Mynd/UNICEF
Ástæða neyðarinnar er meðal annars skortur á uppskeru, hækkandi matvælaverð og stórfelldur fólksflótti vegna árása vígahreyfingarinnar Boko Haram. Löndin sem um ræðir eru Nígería, Tsjad, Níger og Kamerún en svæðið er eitt það fátækasta í heimi.

Barn sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu er níu sinnum líklegra til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast, til dæmis af malaríu, lungnabólgu og niðurgangspestum. Venjulega er því talað um að börn láti lífið af orsökum tengdum vannæringu. Staðan er hins vegar svo slæm núna að sums staðar í Borno-héraði í norðausturhluta Nígeríu svelta börn til dauða.

Ef hægt er að veita öllum börnum í Borno, sem þjást af alvarlegri vannæringu, viðeigandi meðferð er hægt að bjarga meira en 99% þeirra.

UNICEF hefur í áratugi verið á staðnum í öllum fjórum ríkjunum sem um ræðir og hefur nú þegar útvegað mikið magn af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum, meðal annars með hjálp heimsforeldra.


Tengdar fréttir

Ekki horfa, hjálpaðu

UNICEF setur á laggirnar neyðarsöfnun vegna lífshættu fjölda barna í Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×