Innlent

Lögregla rannsakar meint mansal á höfuðborgarsvæðinu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn, sem er af erlendu bergi brotinn, hafði starfað við öryggisgæslu á nóttunni í matvöruverslun á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla fékk ábendingar um að ekki væri allt með felldu, og rannsakar nú hvort um vinnumansal sé að ræða.
Maðurinn, sem er af erlendu bergi brotinn, hafði starfað við öryggisgæslu á nóttunni í matvöruverslun á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla fékk ábendingar um að ekki væri allt með felldu, og rannsakar nú hvort um vinnumansal sé að ræða. vísir/ktd
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú meint vinnumansalsmál sem tengist öryggisvörslu í matvöruverslun í Reykjavík. Erlendur karlmaður hafði starfað í versluninni að nóttu til, á vegum öryggisfyrirtækis, um nokkurt skeið og hafði lögreglu borist ábendingar um að maðurinn væri að fá greitt langt undir því sem eðlilegt getur talist.

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir málið á algjöru frumstigi og vildi því lítið tjá sig um það þegar eftir því var leitað. Hann segir engan hafa verið yfirheyrðan í tengslum við málið á þessari stundu, og þá vildi hann ekki gefa upp hvort maðurinn sé með dvalarleyfi hér á landi.

„Það er verið að safna gögnum í málinu eins og staðan er núna. Það var tilkynnt til lögreglu að það kynni að vera mansal þarna, en ég tek það fram að það er ekki búið að sýna fram á að þarna sé um raunverulegt mansal að ræða,“ segir Grímur í samtali við Vísi.

Þá segir Grímur að verið sé að skoða hvort grunur leiki á frekara mansali, eða brotum á atvinnulöggjöf, hjá fyrirtækinu, en vildi ekki gefa upp um hvaða öryggisfyrirtæki ræðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×