Innlent

„Nú er veturinn kominn“

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Veturinn er kominn og búast má við töluverðum breytingum í veðri næstu daga. Þetta segir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands en hvasst útsynnings skúra- eða éljaveður hefur gengið yfir landið í dag. Á þessum degi fyrir þrjátíu og einu ári varð mikið tjón í ofsaveðri sem gekk yfir landið.

Síðustu vikur hafa verið óvenju mikil hlýindi á landinu þrátt fyrir að á dagatalinu sé kominn vetur.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var nýliðinn október sá næsthlýjasti sem vitað er um á  Akureyri frá upphafi mælinga. Til samanburðar að á þessum degi árið 1985 varð mikið tjón í ofsaveðri sem gekk yfir landið, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þegar bílar fuku, bátar og skip slitu festum og þakjárn, jafn vel heilu þökin hafi fokið út í buskan og voru dagblöðin daginn eftir veðurofsann voru full af myndum og greinum um hvernig veðrið lék landið.

Samkvæmt veðurspám frá Veðurstofu Íslands er nú komið að breytingum í veðrinu. Í dag hefur gengið á með hvössu útsynnings skúra- eða éljaveðri víða um land og segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands ágætt að fólk hafi það bak við eyrað að vetur sé genginn í garð.

„Það er kominn vetur núna hjá okkur. Miklar breytingar í veðrinu. Við erum búin að hafa milt haust og nú má búast við kulda og snjókomu,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið hvasst og skúra eða éljaveður í dag.

„Það má búast við að það verði svona fram að miðnætti,“ segir Helga.

Og áfram má búast við þessu.

„Við verðum áfram í suðvestan éljagangi í kvöld en síðan í nótt dregur úr vindi og éljum en á morgun snýst í norðanátt og vaxandi vind þegar líður á daginn og það verður éljagangur fyrir norðan en léttir til hérna fyrir sunnan,“ segir Helga.

Með veðrinu sem gengur yfir landið má búast við því að færð komi til með að spillast og þurfa ökumenn að hafa varan á.

„Sérstaklega þeir sem eru ekki búnir að undirbúa sig og eru enn þá á sumardekkjum. Þetta er engin færð fyrir þá. En fyrir norðan þá má alveg búast við því að það verði lélegt ferðaveður annað kvöld og á fimmtudag,“ segir Helga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×