Innlent

Níu Íslendingar flæktir í fíkniefnamál sem teygir anga sína til þriggja heimsálfa

Birgir Olgeirsson skrifar
Innflutningurinn teygði sig frá Íslandi, til Amsterdam og Brasilíu en einnig var notast við póstsendingu frá Kína.
Innflutningurinn teygði sig frá Íslandi, til Amsterdam og Brasilíu en einnig var notast við póstsendingu frá Kína. Vísir
Ríkissaksóknari hefur ákært níu manns vegna innflutnings á kókaíni og sterum, ýmist frá Amsterdam, Brasilíu og Kína.

Ákæran er í sex liðum en sá stærsti varðar tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots sem varðar fjármögnun, skipulagningu og innflutning á að minnsta kosti fjórum kílóum af kókaíni frá Brasilíu sem ætlað var til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, að því er fram kemur í ákæru.

Bókuðu flug til að fá gjaldeyri

Talið er að ákærðu reiddu fram í það minnsta fimm milljónir króna fyrir þennan innflutning, eða það er sú upphæð sem ríkissaksóknari tilgreinir í ákærunni en á einum stað er talað um að einn hafi reitt fram ótilgreinda upphæð. Keyptar höfðu verið evrur fyrir íslenskar krónur út á flugmiða til London sem höfðu verið bókaðir á ýmsa einstaklinga.

Þegar gjaldeyrisins hafði verið aflað var hann notaður til að kaupa MDMA í Amsterdam.Vísir/Getty
Borguðu fyrir kókaínið með MDMA

Þegar gjaldeyrisins hafði verið aflað var hann notaður til að kaupa MDMA í Amsterdam. Var MDMA-ið flutt til Brasilíu þar sem það var notað til að kaupa fjögur kíló af kókaíni sem flytja átti til Íslands, að því er fram kemur í ákæru, en ekkert virðist hafa orðið af innflutningnum. Fjórir af ákærðu eru viðriðnir þetta mál.

Handtekinn á hótelherbergi

Þetta var árið 2014 en einn þeirra sem voru viðriðnir fyrra Brasilíu-málið tengist einnig á innflutningi á hálfu kílói af kókaíni frá Brasilíu sem ætlað var til sölu á Íslandi. Sami háttur var hafður á, MDMA var keypt í Amsterdam og það flutt til Brasilíu þar sem því var notað til að kaupa kókaín sem síðar var flutt til Íslands.

Á Íslandi átti burðardýrið að afhenda einum ákærðu kókaínið á hótelherbergi í Reykjavík en þar var viðkomandi handtekinn af lögreglu og fíkniefnin haldlögð.

Notuðu Moneygram

Í ákærunni er svo þriðja málið er varðar kókaíninnflutning, eða 146 grömmum, sem ætlað var til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, að því er fram kemur í ákæru. Þetta gerðist einnig árið 2014 en í ákæru kemur fram að notast var við þjónustu peningaflutningafyrirtækisins Moneygram til að flytja um 5.500 evrur, eða því sem nemur 666 þúsund íslenskum krónum miðað við gengi dagsins í dag, til Amsterdam en þær voru notaðar til að kaupa efnið í Amsterdam.

Á meðal þess sem var gert upptækt var testasterón.
Látinn smygla upp í skuld

Einn ákærðu var síðan sendur til Amsterdam til að veita fíkniefnunum móttöku og flytja þau til Íslands gegn því að skuld sem hann átti yrði felld niður. Hann flutti efnin til Íslands með flugi en hann hafði falið þau innvortis og innanklæða.

Alls voru sex ákærðu viðriðnir þennan lið ákærunnar, en aðkoman varðar skipulagningu, fjármögnun og fíkniefnainnflutninginn sjálfan.

Fluttu mikið magn lyfja frá Kína

Þá er einn hinna ákærðu ákærður fyrir stórfellt tolla-, lyfja- og lyfjasölulagabrot með því að hafa í apríl 2014 flutt inn steralyf frá Kína sem ætluð voru til sölu hér á landi, án þess að gera tollgæslunni grein fyrir varningnum og án þess að hafa markaðs- og lyfjasöluleyfi, að því er fram kemur í ákæru.

Þar segir að ákærði pantaði lyfin á veraldarvefnum og greiddi fyrir þau með því að senda að minnsta kosti 6.000 Bandaríkjadali, eða því sem nemur 673 þúsund íslenskum krónum miðað við gengi dagsins í dag, í gegnum peningaflutningafyrirtæki Western Union, til seljenda lyfjanna.

Handtekinn í Tollmiðlun

Þessi sami einstaklingur er einnig ákærður ásamt tveimur öðrum fyrir annað lyfja- og lyfjasölulagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á fjölda lyfja, þar á meðal stera, sem ætlað var til sölu hér á landi.

Lyfin voru pöntuð frá Kína en rúm milljón króna var send þangað með Western Union í október 2014. Þegar reynt var að leysa út sendinguna að Tollmiðlun Íslandspósts við Stórhöfða í Reykjavík var viðkomandi sem það reyndi handtekinn.

Á heimili þess sem var handtekinn fannst einnig mikið magn lyfja sem var gert upptækt í húsleit lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×