Innlent

Leysingarveður í vændum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fólki er bent á að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Fólki er bent á að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. vísir/stefán
Veðurstofan varar við stormi, meðalvindi yfir 20 metrum á sekúndu, norðan- og austantil á landinu seint í dag. Gert er ráð fyrir talsverðri rigningu í öllum landshlutum í dag, en mest vestanlands.

Þá hvessir af suðvestri en lægðinni fylgir mjög hlýtt loft sem leikur um landið og þar af leiðandi er gert ráð fyrir leysingarveðri, að því er segir á vef Veðurstofunnar. Lægðin verður komin langt norður fyrir land í kvöld og þá dregur talsvert úr vindi og vætu. Til að forðast vatnstjón er fólki bent á að hreinsa frá niðurföllum.

„Hlýindin standa þó stutt því í nótt leggst hann í norðvestanátt með éljum fyrir norðan og kólnandi veðri. Á morgun er spáð hvassri norðvestanátt með éljum norðaustanlands, en mun hægari vindum og bjartviðri annar staðar. Lægir síðan um kvöldið og frystir víðast hvar,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Gengur í suðaustan 8-13 m/s með slyddu eða rigningu á Suður- og Vesturlandi síðdegis og hlýnar. Annars hægari vindur, bjartviðri og minnkandi frost.

Á sunnudag:

Suðlæg átt 8-15 m/s og rigning með köflum, en þurrt og bjart að mestu norðan- og austanlands. Hiti 1 til 7 stig, en kólnar um kvöldið.

Á mánudag:

Sunnan- og suðvestan 5-13 m/s. Él sunnan- og vestanlands, en annars bjartviðri. Kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×