Innlent

Dróni stöðvaði krana við Landspítalann í stutta stund

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vinnueftirlitið var kallað til vegna atviksins til að ganga úr skugga um að kraninn hefði ekki hlotið skaða af.
Vinnueftirlitið var kallað til vegna atviksins til að ganga úr skugga um að kraninn hefði ekki hlotið skaða af.
Stöðva þurfti notkun byggingakrana, sem notaður er við að reisa nýtt sjúkrahótel hjá Landspítalanum við Hringbraut, eftir að dróni flaug á kranann. Engin töf varð sökum atviksins.

„Þetta var utanaðkomandi dróni sem einhver flaug yfir svæðið. Svona eins og gengur og gerist,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf. „Þar sem hann lenti utan í krananum þá vildu menn eðlilega kanna hvort eitthvað hefði komið upp á.“

Vinnueftirlitið var kallað á staðinn í samræmi við öryggisreglur sem NLSH og LNS Saga, verktaki verksins, settu sér við upphaf þess.

„Þetta var óhappatilvik. Þegar eitthvað kemur upp á þá er kallað á Vinnueftirlitið til öryggis. Atvikið olli engum töfum,“ segir Gunnar.

Framkvæmdum við sjúkrahótelið miðar vel áfram að sögn Gunnars en yfirstandandi er steypu- og lagnavinna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Mynd, tekin með dróna, sem sýnir stöðu mála í liðinni viku. Dróninn er ekki sá hinn sami og um er rætt í fréttinni.MYND/NÝR LANDSPÍTALI

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×