Rapparinn heimsfrægi, íslandsvinurinn Kanye West, hefur verið lagður inn á sjúkrahús í Los Angeles sökum ofþreytu, að því er talsmaður hans segir.
Kanye aflýsti í gær restinni af stóru tónleikaferðalagi sem hann var á og skömmu síðar var hann fluttur á spítala eftir að lögregla hafði verið kölluð að heimili hans og eiginkonu hans, raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian.
Fyrir nokkrum dögum vakti hann mikla athygli í Sacramento í Kaliforníu þar sem hann stöðvaði tónleika sína eftir aðeins fjögur lög til að halda mikinn reiðilestur yfir tónleikagestum og gagnrýna rapparann Jay Z og konu hans Beyonce ásamt því að stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg fékk líka sinn skerf.
Til stóð að Kardashian kæmi fram á viðburði í New York í gærkvöldi, sem hefði verið í fyrsta sinn sem hún kæmi opinberlega fram frá því að hún var rænd á hóteli í París í síðasta mánuði, en hún lét sig vanta.
Kanye West fluttur á sjúkrahús í Los Angeles
Atli Ísleifsson skrifar
