Innlent

Gunnar Eyjólfsson er látinn

Anton Egilsson skrifar
Gunnar Eyjólfsson á fjölum Þjóðleikhússins.
Gunnar Eyjólfsson á fjölum Þjóðleikhússins. Vísir
Gunnar Eyjólfsson, leikari, er látinn 90 ára að aldri. Hann lék í vel á annað hundrað leiksýningum, flest í Þjóðleikhúsinu, á löngum og farsælum ferli.

Á vef Þjóðleikhússins er farið yfir viðburðarríkan feril Gunnars. Hann hóf sinn leikferil í sýningunni Kaupmaður í Feneyjum með Leikfélagi Reykjavíkur árið 1945. Hann stundaði nám við Royal Acacdemy of Dramatic Art í London á árunum 1945-47 og lék um skeið í Stratford og London.

Hann varð svo fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið árið 1961 og lék þar fjölda burðarhlutverka. Meðal annars lék hann titilhlutverkin í Pétri Gaut, Hamlet, Fást, Ödípus konungi og Galdra-Lofti.

Þá lék Gunnar í fjölda kvikmynda, sjónvarpsmynda og útvarpsleikrita, meðal annars í Milli fjalls og fjöru, 79 af stöðinni, Atómstöðinni, Hafinu, Mömmu Gógó, Lénharði fógeta og Paradísarheimt.

Hann sat lengi í þjóðleikhúsráði og þá sat hann í menntamálaráði í rúman áratug. Gunnar var skátahöfðingi Íslands á árunum 1987-95.

Gunnar vann til fjölmargra verðlauna á sínum ferli. Hann hlaut Shakespeare-verðlaunin hjá RADA, fyrstur útlendinga, vann Tennentverðlaunin og Silfurlampann árið 1963 fyrir túlkun sína á Andra og Pétri Gaut. Þá vann hann til Edduverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Hafinu.

Honum var veittur Stefaníustjakinn fyrir leiklistarstörf sín árið 2006 og heiðursverðlaun Grímunnar fyrir ævistarf sitt í þágu sviðslistar á Íslandi árið 2013. Þá hlaut Gunnar riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í leiklist og í þágu æskulýðsmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×