Innlent

Móðirin sem var dæmd fyrir gróft ofbeldi hefur áfrýjað

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Konan var dæmd í átján mánaða fangelsi fyrir ítrekuð ofbeldisbrot gagnvart fimm ungum börnum sínum.
Konan var dæmd í átján mánaða fangelsi fyrir ítrekuð ofbeldisbrot gagnvart fimm ungum börnum sínum. Vísir/GVA
Konan sem dæmd var í átján mánaða fangelsi í september fyrir ítrekuð ofbeldisbrot gagnvart fimm börnum sínum hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Þetta staðfestir verjandi konunnar í samtali við Vísi.

Konan, sem er þrjátíu og fjögurra ára, var dæmd fyrir alvarleg og langvarandi ofbeldisbrot gagnvart börnum sínum sem eru á aldrinum þriggja til fjórtán ára. Hún var sögð hafa beitt þau andlegum og líkamlegum refsingum, haft í hótunum við þau, ógnað þeim, sýnt þeim vanvirðandi háttsemi, sært þau og móðgað.

Gagnvart yngstu börnunum, tveimur drengjum fæddum 2012 og 2013, var hún sögð hafa tekið þá upp og hrist þá, hent þeim í rúmið þegar hún var að svæfa þá, slegið þá og tekið fyrir vit þeirra þegar þeir grétu. Þá var hún sökuð um að hafa í nokkur skipti sparað í eldri börn sín, stúlku fæddri 2002 og drengjum fæddum 2004 og 2007, slegið þau, togað í hár þeirra, hrint þeim og slegið þeim utan í veggi og hluti, tekið þau kverkataki, kastað hlutum í þau, læst þau úti og haft í hótunum um að gera þeim illt eða drepa þau, svo fátt eitt sé nefnt.

Málefni barnanna höfðu verið í vinnslu hjá Barnavernd Reykjavíkur í tíu ár, eða allt þar til farið var fram á lögreglurannsókn árið 2015 á ætluðu ofbeldi konunnar gagnvart börnunum.

Konan hefur haldið fram sakleysi sínu í málinu. Auk fangelsisdómsins var henni gert að greiða börnunum samtals fjórar milljónir króna í skaðabætur. Hún hefur verið svipt forræði yfir börnunum, samkvæmt nýlegum dómi Hæstaréttar. Þá hefur konan verið ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn barnsföður sínum, en hún er sökuð um að hafa veist að honum með hnífi á síðasta ári, að því er greint er frá á vef Nútímans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×