Innlent

Viðhaldsfé Landspítalans dugir hvergi nærri

Svavar Hávarðsson skrifar
Viðgerðir á Landakoti standa yfir og eru langt komnar í þessum áfanga.
Viðgerðir á Landakoti standa yfir og eru langt komnar í þessum áfanga. vísir/vilhelm
Vegna fjárskorts hefur aðeins reynst mögulegt að sinna fjórðungi þess utanhússviðhalds sem verkfræðistofan Efla taldi aðkallandi á byggingum Landspítalans árið 2013 – alls 70 talsins.

Árið 2013 vann verkfræðistofan Efla fyrir Landspítala úttekt á öllu húsnæði spítalans, viðgerðarþörf og áætlaði kostnað. Sett var upp þriggja ára viðhaldsáætlun. Skýrslan náði aðeins til utanhússviðhalds bygginga en Landspítali hefur notað þessa úttekt sem grunn í sinni áætlanagerð síðustu árin, en vegna fjárskorts ekki komist nándar nærri eins hratt í verkefnin og áætlun Eflu gerði ráð fyrir.

Ingólfur Þórisson
Með úttektinni taldi Efla að komin væri þokkaleg heildarmynd á ástand mannvirkja í eigu Landspítala, og kostnaðurinn metinn á þrjá milljarða króna að núvirði.

Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs LSH, segir að 300 milljónir hafi verið settar í utanhússviðhald árin 2014, 2015 og 2016. Það sé um þriðjungur þess sem tiltekið var í úttekt Eflu en myndin hafi breyst nokkuð síðan. Einstakar viðhaldsaðgerðir hafa reynst umfangsmeiri en reiknað var með. „Ætli svona fljótt á litið megi ekki áætla að við höfum náð um fjórðungi af því sem lagt var upp með,“ segir Ingólfur sem áréttar að skýrslan nái í engu til viðhaldsþarfar innan­húss.

„Fjárframlag til viðhalds á Landspítala hefur verið aukið töluvert síðustu þrjú árin, en það er eftir langt tímabil þar sem byggingarnar voru sveltar áratugum saman. Það hefur því safnast upp mikill hali sem við erum að vinna niður,“ segir Ingólfur og bætir við að alls ekki sé um sparnað að ræða því viðhaldsþörfin hverfur ekki. Ódýrast sé til lengdar að sinna viðhaldi bygginga jafnt og þétt árlega.

„Ef viðhald er dregið lengi er hætta á lekum og þar með tilheyrandi skemmdum innanhúss og möguleika á mygluvexti innan bygginganna. Það er ekki þar með sagt að allur mygluvöxtur sé vegna þess að viðhald hefur ekki verið viðunandi, við höfum líka dæmi um að ný hús hafa verið það illa byggð að raki hefur safnast upp í þeim og mygla gert vart við sig,“ segir Ingólfur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×