Innlent

Hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður fimm flokka hefjast á morgun, eftir að þingflokkar þeirra samþykktu það síðdegis. Formaður Vinstri grænna vonast til að viðræðurnar taki skamman tíma.

Formenn flokkanna fimm funduð í dag og eftir þann fund var ljóst að vilji var til þess meðal þeirra að hefja formlegar stjórnamyndunarviðræður. „Ég lagði það til að við myndum fara þá í formlegar viðræður um það að reyna að mynda stjórn og setja niður ákveðna hópa til að fara yfir málefnin,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.

Allir þingflokkar flokkanna fimm samþykktu síðdegis að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Katrín mun upplýsa Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands um stöðu mála símleiðis í dag eða á morgun. „Það er kannski ekki skynsamlegt að fara að setja sér sjálfur of mikla pressu í tímamörkum en eins og ég segji við lítum á það sem okkar ábyrgð að vinna hratt en um leið vel,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Formenn flokkanna undirbúa sig nú undir viðræðurnar. „Manni sýnist að það komi allir allavega að fullri alvöru til fundar til þess að sjá hvort að við finnum flöt á því að vinna saman. Ég held að það sé alveg möguleiki og það er líka okkar ábyrgð bara stjórnmálaflokkanna á þingi að finna leiðir til þess að mynda góða og sterka ríkisstjórn,“ segir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar um viðræðurnar framundan.

Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata er einnig bjartsýn á viðræðurnar. „Ég er ekki að skynja það mikinn mismun að það er ekki hægt að ná málamiðlun um þau mál sem að kannski mest ber út af,“ segir Birgitta. Þá segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, að hann telji þess virði að ræða saman. „Mér finnst ekkert sem kom fram þarna á fundinum gefa tilefni til annars heldur en að ræða saman,“ segir Logi.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, átti í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, þegar hann hafði umboð til stjórnarmyndunar á undan Katrínu. „Maður sér það nú aðeins af reynslunni að maður veit ekki hvort það gengur bara fyrr en það gengur,“ segir Benedikt.

Málefnahópar flokkanna munu á næstu dögum vinna að því að fara yfir málefnagrundvöll hugsanlegs stjórnarsamstarfs þessara flokka en fyrstu fundirnir verða á nefndarsviði Alþingis á morgun.


Tengdar fréttir

Flokkarnir fimm funda eftir hádegi

Það skýrist í dag hvort hafnar verði formlegar stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna og fjögurra annarra flokka. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna fundar með formönnum flokkanna klukkan eitt í Alþingishúsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×