Lífið

Jörmundur með fatamarkað

Sólveig Gísladóttir skrifar
Jörmundur á fatamarkaði sínum í kjallara á Laugavegi 25.
Jörmundur á fatamarkaði sínum í kjallara á Laugavegi 25. Mynd/Eyþór
Jörmundur Ingi Hansen hefur frá unga aldri haft óbilandi áhuga á fötum. Hann rekur fatamarkað í kjallara á Laugavegi 25 og selur notuð föt sem honum hafa áskotnast með ýmsum hætti. Hann er kræsinn á föt og vill aðeins það besta.

Jakkaföt, frakkar, smóking, kjólföt og stakir jakkar flæða á móti blaðamanni þegar hann gengur inn á fatamarkað Jörmundar. Jörmundur er að afgreiða ungan mann sem kafar inn í fatarekka eftir einhverjum gullmola. Þegar ungi maðurinn hefur kvatt setjumst við niður innan um herðatré og Boss-jakka.

„Það er svo sem ekki mikið að gera hjá mér enda er ég aðallega að þessu til að hafa stað til að hanga á,“ segir Jörmundur glettinn. „Þetta byggist allt á því að vera sem þægilegast fyrir mig enda opna ég ekki fyrr en eftir hádegi,“ segir hann en markaðurinn er opinn frá miðvikudegi til sunnudags frá 14 til 19.

Jörmundur Ingi innan um lítið brot af þeim jökkum og jakkafötum sem hann hefur til sölu.Mynd/Eyþór
Sleppti sér í fatakaupum

Jörmundur segist alltaf hafa viljað eiga góð föt. Oft fór hann í Kolaportið til að leita að einhverju spennandi. „Þar var kona sem hvatti mig til að koma og selja sjálfur. Ég var alltaf að kaupa föt, ekki bara á sjálfan mig heldur líka bræður mína og frændur sem síðan vildu kannski ekki eiga þau. Því fór þetta að safnast upp hjá mér. Ég ákvað því að fara að selja föt í Kolaportinu. Þá sleppti ég mér hins vegar alveg í kaupunum enda þótti mér það í lagi þar sem ég ætlaði að selja það allt saman aftur. En það fór nú ekki svoleiðis,“ segir hann og hlær. „Síðan var ég svo heppinn fyrir fjórum eða fimm árum að fá þetta lagerpláss hér.“

Safnast upp

Jörmundi áskotnast föt eftir ýmsum leiðum. Stundum kaupir hann gamla lagera af búðum sem eru að hætta. „Svo leyfi ég fólki að skipta. Þannig geta menn komið með tvo jakka sem eru of litlir og fá í staðinn einn sem passar. Þá fjölgar enn hjá mér.“

Inntur eftir því hvort hann freistist ekki til að klæðast fötum af markaðnum segist hann eiga allt of mikið af fötum heima líka. „Ég setti mér þá vinnureglu að ef ég tek einn jakka af markaðnum heim þurfi ég að koma með tvo niður eftir í staðinn. En það gengur nú ekki alltaf eftir,“ segir hann kíminn. Hins vegar segist hann aldrei ganga í sömu fötunum í tvo daga í röð. „Það fer mun betur með fötin.“

Jörmundur athugar gæðin.Mynd/Eyþór
Skipulagt kaos

Við fyrstu sýn virðist markaðurinn í algerri óreiðu en þegar betur er að gáð er skipulag á öllu. „Ég veit nokkurn veginn hvað ég á. Sumt hefur verið hér frá byrjun en það kemur alltaf að því að það selst. Ég held því alltaf fram að ef menn nenna að leita nógu lengi þá finni þeir eitthvað sem þeir geti alls ekki lifað án.“

Trump-jakkarnir seldust

Úrvalið er mikið. „Ég á staka jakka, jakkaföt, smókinga, kjólföt, sjakket og hvíta smókinga og allt þar á milli,“ segir Jörmundur sem bendir á Boss-jakkana sem liggja í sófanum. „Á ruglárunum var ekkert keypt nema það héti Boss eða Armani. Ég á dálítið af þeim jökkum. Svo átti ég líka tvo Trump-jakka, sem Donald Trump lét sauma fyrir einhverja verslun í sinni eigu. Þeir eru seldir,“ segir hann og bætir glettinn við: „Þeir voru saumaðir í Kólumbíu.“

Og verðið? „Það er einfalt. Jakkaföt kosta tólf þúsund krónur ef þau eru úr hundrað prósent ull. Jakkarnir kosta svona átta, níu þúsund. Það eru ekki mörg verð í gangi, enda myndi það alveg æra mann,“ segir Jörmundur. Hann tekur ekki við fötum nema þau séu alveg í lagi, og helst aðeins úr 100 prósent ull.

Í klæðskerasaumuðum fötum

En hvaðan kemur fataáhuginn? „Maður var bara alinn svona upp. Mamma annaðhvort saumaði föt á okkur bræðurna sjálf eða lét klæðskera sauma á okkur. Síðan þá hef ég alltaf lagt upp úr því að vera í almennilegum fötum.“

Jörmundur segir mikinn mun á fötum í dag og þegar hann var ungur. „Eftir að við gengum í EFTA hættu Íslendingar að smíða húsgögn og sauma föt. Allt var flutt inn í miklu verri gæðum,“ segir Jörmundur sem telur að föt og skór eigi að endast tuttugu ár eða meira. „Hingað fæ ég stundum föt frá saumastofunum Gefjun, Ultima og Iðunni sem eru jafnvel fimmtíu ára gömul og það sér ekki á þeim.“

Leiðbeinir ungum mönnum

Jörmundur segir viðskiptavini sína helst vera unga menn frá 15 ára upp í þrítugt.

Hann segir í raun lítið upp úr fatasölunni að hafa en það sé hins vegar ekki tilgangurinn að græða. „Mér finnst gaman að geta hjálpað mönnum að klæða sig. Ég tala nú ekki um eftir að þessi tíska kom til með allt of stuttum jökkum, níðþröngum með stuttum ermum. Meira að segja Bjarni Ben lítur út eins og Angela Merkel í þessum fötum. Ef ég get aðeins lagfært þetta er ég mjög ánægður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.