Körfubolti

Formannaskipti í Njarðvík: Engin ástæða til að örvænta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Njarðvíkur fyrr í vetur.
Úr leik Njarðvíkur fyrr í vetur. Vísir
Gunnar Örlygsson mun hætta sem formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur um áramótin. Það staðfesti hann í samtali við Vísi í dag.

„Mér finnst klúbburinn frábær og þykir mjög vænt um hann. Ég finn mig hins vegar knúinn til að hætta núna vegna mikilla anna í minni vinnu. Þetta er bara spurning um tíma fyrir mig,“ segir Gunnar.

Staða Njarðvíkur í Domino's-deildar karla er slæm en liðið er í fallsæti yfir jólin eftir þrjá tapleiki í röð. Gunnar segir að það sé þó engin upplausn innan félagsins og engin átök.

„Það er ekki til í dæminu og það er enginn að örvænta þó svo að staðan sé slæm. Félagið er að ná sér í nýjan stóran erlendan leikmann og vonandi munu sigrar líta dagsins ljós á nýju ári,“ segir Gunnar en Njarðvík hefur sárlega þurft á stórum miðherja að halda í upphafi tímabils. Var það ein helst ástæða þess að Stefan Bonneau fékk ekki nýjan samning hjá félaginu í haus.

Styrkir áfram félagið

Gunnar og fyrirtæki hans hafa verið stærstu fjárhagslegi stuðningsaðili körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur undanfarin ár og það mun ekki breytast þó svo að Gunnar hætti sem formaður.

„Rekstur deildarinnar er í góðum málum. Félagið skuldar engum og alltaf staðið við allt sitt. Þannig verður það áfram. Róbert [Guðnason, varaformaður] sem nú tekur vi er hundrað prósent í öllu sínu og ég treysti honum vel til að taka við.“

Og hann segir að brotthvarf Bonneau hafi ekkert um það að segja að hann sé að hætta nú. „Alls ekki. Við erum samt góðir vinir og heyrumst reglulega. Honum líður vel í Danmörku en vill koma aftur til Íslands. Þetta er allt á réttri leið hjá honum,“ sagði Gunnar en Bonneau samdi við Svendborg Rabbits í Danmörku eftir að hann fór frá Njarðvík.

Liðin í Domino's-deildunum eru nú komin í jólafrí en næsta umferð hefst þann 5. janúar og eigast þá við grannarnir og erkifjendurnir í Keflavík og Njarðík.


Tengdar fréttir

Gunnar Örlygsson: Rekið mig frekar en þjálfarann

Gunnar Örlygsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, tjáði sig um þjálfaramál karlaliðs félagsins á fésbókinni í kvöld eftir að Njarðvíkurliðið datt út úr Maltbikarnum á móti nágrönnum sínum í Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×