Handbolti

Bilað brot leiddi til bláa spjaldsins | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fólskulegt brot leit dagsins ljós í leik KR og Þróttar í 1. deild karla í handbolta í gærkvöldi í leik sem KR-ingar unnu með tíu marka mun, 37-27.

Átta mínúturm fyrir leikslok komst Viktor Orri Þorsteinsson, leikmaður KR, inn í sendingu Þróttarans Óttars Filipps Péturssonar og brunaði fram völlinn þar sem Óttar stóð einn í vörninni.

Eitthvað fór staða leiksins og þessi mistök Óttars í leikstjórnandann því hann hélt í smástund að hann væri kominn í bandarísku fjölbragðaglímuna og tók „þvottasnúruna“ á Viktor Orra. Stórhættulegt og sturlað brot.

Dómararnir dæmdu aukakast um leið og stöðvuðu leikinn á meðan þeir ákváðu hver refsingin yrði. Óttar Filipp vissi alveg að þátttöku hans var lokið og gekk af velli á meðan dómaraparið ræddi saman. Niðurstaðan var að sjálfsögðu rautt spjald en því fylgdi svo bláa spjaldið sem þýðir að Óttar Filipp er eðlilega á leið í bann.

Viktor Orri skoraði eitt mark fyrir KR í leiknum sem er að gera flotta hluti undir stjórn Ágústar Jóhannssonar en liðið er í öðru sæti deildarinnar með 19 stig, fimm stigum á eftir toppliði Fjölnis sem er búið að vinna alla tólf leiki sína.

Atvikið úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×