Enski boltinn

Klopp baunar á Gary Neville: Hann er ekki góður að dæma leikmenn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp stendur þétt við bakið á markverði sínum.
Klopp stendur þétt við bakið á markverði sínum. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kom markverðinum Loris Karius til varnar á blaðamannafundi í dag.

Karius hefur átt erfitt uppdráttar í síðustu leikjum og fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína, m.a. frá Jamie Carragher og Neville-bræðrunum, Gary og Phil.

Á blaðamannafundinum í dag skaut Klopp á Gary Neville og spurði hvort hann væri rétti maðurinn til að gagnrýna leikmenn.

„Hann hefur sýnt að hann á erfitt með að meta og dæma leikmenn svo af hverju fær hann að gera það í sjónvarpi?“ sagði Klopp og vísaði til misheppnaðrar stjórnartíðar Nevilles hjá Valencia.

Klopp segir að þessi gagnrýni hafi eitthvað með ríginn á milli Manchester United og Liverpool að gera.

„Ég get ímyndað mér að hann [Gary Neville] hafi ekki áhuga á að hjálpa leikmanni Liverpool. Ég hlusta ekki á hann. Ég er viss um að Jamie Carragher talar ekki alltof vel um leikmenn Man Utd,“ sagði Klopp.

„Neville-bræðrunum er augljóslega ekki vel við Liverpool. Og meðan ég man, þá getið þið sagt honum að ég er ekki á Twitter. Ef hann langar að segja mér eitthvað þá er Twitter ekki rétti staðurinn til þess.“

Liverpool, sem er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sækir Middlesbrough heim í næsta leik sínum á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir

Klopp: Okkur vantaði heppni

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að heppnin hefði ekki verið með hans mönnum í liði gegn West Ham United í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×