Enski boltinn

Carragher um Karius: Myndi ráðleggja honum að halda kjafti og vinna vinnuna sína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Jamie Carragher, sparkspekingur á Sky Sports og fyrrverandi leikmaður Liverpool, er ekki hrifinn af markverðinum Loris Karius sem var keyptur til Liverpool frá Mainz 05 í sumar.

Carragher gagnrýndi Karius eftir leik Liverpool og Bournemouth um síðustu helgi. Þjóðverjinn átti ekki góðan leik og að mati Carraghers hefði hann átt að gera betur í tveimur af fjórum mörkum Bournemouth.

Karius var heldur ekki sannfærandi þegar Liverpool og West Ham United gerðu 2-2 jafntefli á Anfield í gær. Markvörðurinn ungi átti sennilega að gera betur í markinu sem Dimitri Payet skoraði beint úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik.

„Hann var gagnrýndur í síðustu viku og baunaði síðan á Gary Neville í viðtali og nefndi mig. Ég myndi ráðleggja honum að halda kjafti og vinna vinnuna sína. Hluti af því og að svara gagnrýnisröddunum var að verja aukaspyrnuna,“ sagði Carragher eftir leikinn í gær.

„Það var ekki það erfitt. Mér finnst staðsetningin í lagi, hann nær að færa sig og les þetta vel. En líkt og gegn Bournemouth er úlnliðurinn á honum bara ekki nógu sterkur. Spyrnan var ekki einu sinni í horninu og ekki það föst.“

Þótt Carragher sé ekki mesti aðdáandi Simons Mignolet veltir hann því fyrir sér hvort það sé ekki kominn tími á að setja Belgann aftur í markið.

„Það myndi rústa sjálfstraustinu hjá stráknum [Karius] að setja hann á bekkinn en í augnablikinu er hann að rústa liðinu inni á vellinum,“ sagði Carragher.

Liverpool er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig, sex stigum á eftir toppliði Chelsea.


Tengdar fréttir

Klopp: Okkur vantaði heppni

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að heppnin hefði ekki verið með hans mönnum í liði gegn West Ham United í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×