Lífið

Góðmennska George Michael átti sér lítil takmörk

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hjúkrunarfræðingar voru söngvaranum sérstaklega hugleiknir.
Hjúkrunarfræðingar voru söngvaranum sérstaklega hugleiknir. Vísir/Getty
George Michael, sem lést á jóladag, hefur ekki aðeins verið minnst sem tónlistarmanns sem færði okkur ódauðlegar perlur á borð við Last Christmas, Careless Whisper og Faith heldur einnig fyrir fádæma góðmennsku og gjafmildi.

Allt frá því að fregnir bárust af andláti hans hefur fjöldi einstaklinga og félagasamtaka stigið fram og greint frá góðverkum söngvarans - sem hann gerði oftar en ekki nafnlaust.

Breski sjónvarpsmaðurinn Richard Osman greindi frá því að George Michael hafi til að mynda gefið konu 15 þúsund pund, rúmar 2 milljónir króna á gengi dagsins í dag, svo hún gæti farið tæknifrjóvgunina sem hana dreymdi um.

Konan hafði verið keppandi í þættinum Deal or No Deal og setti söngvarinn sig í samband við stjórnendur þáttarins og bað þá um að koma peningnum til konunnar. Hún komst aldrei að því hver hafði rétt henni hjálparhönd - þar til nú.

Það er þó langt í frá eina góðverkið sem poppgoðið gerði í lifanda lífi. Hann á að sama skapi að hafa gefið grátandi konu á kaffihúsi 25 þúsund pund, liðlega 3 og hálfa milljón króna, svo hún gæti gert upp við lánadrottna sína.

Þá átti söngvarinn til að verja frístundum sínum við sjálfboðaliðastörf í athvarfi fyrir heimilislausa. „Ég sagði aldrei neinum, hann fór fram á það,“ segir Emilyne Mondo sem starfaði með honum í athvarfinu.

Gaf hjúkrunarfræðingum þúsundir tónleikamiða

Hjúkrunarfræðingar voru George Michael hugleiknir, ekki síst eftir að hafa þurft að fylgja móður sinni í gegnum erfið veikindi. Tónlistarmaðurinn gaf breskum hjúkrunarfræðingum hundruð miða á tónleika hans í gegnum árin ásamt því að halda sérstaka tónleika þeim til heiðurs árið 2006 þangað sem þeim var boðið, endurgjaldslaust.

1000 austurískir hjúkrunafræðingar fengu að sama skapi boð á tónleika hans. George Michael leit á það sem þakklætisvott eftir að hann greindist með lungnabólgu árið 2012 og þeir austurrísku hjúkruðu honum aftur til heilsu.

Sjá einnig: George Michael var einsamall þegar hann lést.

Það voru þó ekki einungis starfandi hjúkrunarfræðingar sem fengu að njóta góðmennsku hans. Afgreiðslukona á veitingastað fékk 5000 pund í þjórfé frá George Michael eftir að hann komst að því hún hafði sótt um starfið til að fjármagna hjúkrunarfræðinám sitt og greiða upp skuldir.

Allan ágóða af lögunum Last Christmans/Everything She Wants, Don't Let the Sun Go Down On Me og Jesus To a Child lét hann renna til margvíslegra hjálparsamtaka, jafnt í Bretlandi sem og í Eþíópíu sem hafði orðið illa úti í þurrkum.

Don't Let The Sun Go Down On Me má heyra hér að neðan

Samtökin Childline, sem hjálpa börnum að takast á við hvers kyns vandamál, nutu líklega gjafmildi hans meira en nokkur annar.

Stofnandi og forseti samtakanna, Esther Rantzen, sagði í samtali við fjölmiðla ytra að George Michael hafi verið „ótrúlega gjafmildur mannvinur. Hann var ákveðinn í að góðmennska hans þyrfti ekki að spyrjast út svo enginn utan samtakanna raunverulega vissi hversu mikið hann studdi við verst settu börn samfélagsins,“ sagði Rantzen.

Sjá einnig: Heimsbyggðin syrgir George Michael: „Allir núlifandi og starfandi karlpoppsöngvarar skulda þér eitthvað poggu“

„Hann hefur gefið okkur milljónir [punda] í gegnum árin og höfðum við hugsað okkur að halda stóra tónleika á næsta ári, þegar við fögnum 30 ára afmæli samtakanna, honum til heiðurs. Ekki einungis til heiðurs tónlistarsköpun hans heldur einnig sem þakklætisvott frá þeim þúsundum barna sem hann studdi í gegnum Childline.“


Tengdar fréttir

Hjartabilun dánarorsök George Michael

Hjartabilun var dánarorsök breska söngvarans George Michael en hann lést í gær, jóladag, langt fyrir aldur fram, aðeins 53 ára að aldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×